141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi ræðu minnar vísa aðeins í þær umræður sem áttu sér stað hér síðast milli hv. þingmanna Skúla Helgasonar og Höskuldar Þórhallssonar. Þær leiða í ljós að ekki er hægt að ræða um auðlindaákvæði á jafneinfeldningslegum nótum og oft hefur verið gert í þessum sölum síðustu tvo eða þrjá dagana. Það er látið í veðri vaka að á borðinu sé ein tillaga um auðlindaákvæði og annaðhvort hljóti menn að samþykkja hana eða hafna og aðrir kostir séu ekki í stöðunni. Samtal hv. þingmanna Höskuldar Þórs Þórhallssonar og Skúla Helgasonar leiddi hins vegar í ljós að það eru fleiri útgáfur í umræðunni, ekki síst sú tillaga sem framsóknarmenn komu með fyrir fáum vikum og fékk litlar undirtektir hjá stjórnarliðum á þingi. En þær eru auðvitað fleiri.

Við skulum bara til upprifjunar geta þess að lengi vel var grundvöllur umræðu um auðlindaákvæði niðurstaða auðlindanefndar frá árinu 2000. Mikil vinna lá að baki því orðalagi sem eignað hefur verið ýmsum, en færustu lögfræðingar landsins komu að samningu þess ákvæðis á sínum tíma fyrir nefndina sem þá var að störfum undir forustu Jóhannesar Nordals. Þetta var grunnur undir umræður um þessi mál um allnokkurt skeið.

Ég minnist þess að vorið 2007 komu inn í þingið fleiri en ein tillaga að auðlindaákvæði sem ollu töluverðum deilum, ekki vegna þess að þær gengju efnislega þvers og kruss heldur vegna þess að útfærslan var með ólíkum hætti og staðan var sú í aðdraganda kosninga 2007 að ekki vannst tími til að ljúka því. En það voru fleiri útgáfur af auðlindaákvæði á borðinu þá.

Stjórnlaganefnd sem starfaði á grundvelli samþykktar Alþingis 2010–2011 skilaði af sér tillögum að auðlindaákvæði. Það má segja að hafi verið enn ein útgáfan af auðlindaákvæði, gekk út á auðlindir í þjóðareigu, en útfærslan var með öðrum hætti en margar fyrri útgáfur. Hvað gerðist síðan? Innan stjórnlagaráðs höfðu margir áhuga á þessu máli og niðurstaðan varð nýtt ákvæði um auðlindir landsins í þjóðareigu. Eftir að stjórnlagaráð skilaði sínum niðurstöðum til Alþingis sumarið 2011 var töluvert um þetta fjallað og meðal annars kom fram harkaleg gagnrýni, ekki síst frá fræðimönnum í lögfræði, bæði sérfræðingum á sviði umhverfis- og auðlindaréttar en þó ekki síður frá sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar þannig að ákvæðið eins og það kom frá stjórnlagaráði var gagnrýnt mjög harðlega.

Síðan bar svo við að á haustdögum var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli laga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Þar var annars vegar spurt hvort fólk vildi leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og í þeirri spurningu voru undir allar 115 eða 116 greinarnar í þeirri tillögu stjórnlagaráðs. Síðan var meðal sértækra spurninga sem líka fylgdu á atkvæðaseðlinum spurt um auðlindir í þjóðareigu, en það var ekki spurt sérstaklega um orðalagið eins og það kom frá stjórnlagaráði. Sérstaka spurningin eins og hún var á seðlinum var orðuð með miklu almennari hætti en tillaga stjórnlagaráðs þannig að ætla má að jafnvel þótt fólk hafi sagt já við spurningunni eins og hún var orðuð á kjörseðlinum hafi það ekki endilega verið að taka afstöðu til tillögu stjórnlagaráðs.

Þannig var þetta reyndar líka túlkað í framhaldinu því að í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar kom inn í þingið frumvarp sem var byggt á vinnu sérfræðingahóps þar sem meðal annars útfærsla auðlindaákvæðis var nokkuð önnur en kom frá stjórnlagaráði. Á því voru gerðar nokkrar breytingar. Við þetta voru ýmsir í þinginu ekki sáttir og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skilaði af sér tillögu sem fól í sér að í raun og veru væri horfið frá orðalagi sérfræðingahópsins sem var grunnurinn að frumvarpstextanum í nóvember. Þetta var í janúar og ef ég man rétt var orðalagið fært aftur nokkurn veginn orðrétt til þess sem frá stjórnlagaráði hafði komið í upphafi.

Enn verður vending í málinu í febrúar því að þá skilar meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nýju framhaldsnefndaráliti um málið og með nýjum bunka af breytingartillögum eins og menn þekkja. Meðal breytinganna sem þá lágu fyrir var einmitt nýtt orðalag auðlindaákvæðis þannig að þetta er ekki einhlítt, það er ekki eins og menn geti verið að tala um auðlindaákvæði með stórum staf og greini. Það eru margar útgáfur í gangi og margar útgáfur sem við höfum séð á undanförnum vikum, svo ekki sé talað um ár.

Eins og hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson gat réttilega um áðan skiptir útfærslan máli vegna þess að hún getur haft töluvert mikil áhrif á það hvernig með ákvæðið verður farið bæði þegar kemur að því að semja afleidda löggjöf, löggjöf sem byggir á stjórnarskrárákvæðinu, og eins þegar dómstólar koma til með að túlka og skýra ákvæðið. Smáatriði, jafnvel eitt orð, breyting á einu orði eða einni setningu, getur haft úrslitaáhrif á það hvernig ákvæðið er túlkað.

Í því sambandi er allt í lagi að minna á að á vettvangi atvinnuveganefndar fyrr í vetur kom skýrt fram að til dæmis túlkun á orðalagi af því tagi sem við sjáum á blaði í dag frá hv. þingmönnum Oddnýju Harðardóttur, Álfheiði Ingadóttur og fleirum útilokar allt þetta pottakerfi og byggðaaðstoð sem felst í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þetta er bara lítið dæmi um áhrif þess hvernig orðalag er ákveðið í þessum efnum.

Ég er ekki viss um að allir þeir sem stóðu að þessu orðalagi hafi hugsað út í þetta. Það væri reyndar forvitnilegt ef svo væri því að það verða líka athyglisverðar upplýsingar í umræðunni um fiskveiðistjórn sem einnig fer fram þessa dagana með einum eða öðrum hætti.

Hæstv. forseti. Það sem ég er að reyna að vekja athygli á í þessari umræðu er að það er ekki einhlítt að afstaða manna til breytingartillögu hv. þingmanna Oddnýjar Harðardóttur, Álfheiðar Ingadóttur og fleiri sé eina leiðin til að ná fram niðurstöðu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við sjálfstæðismenn gerðum raunar eins og framsóknarmenn, veltum því upp í umræðum strax í janúar, og raunar miklu fyrr, hvort hægt væri að ná samstöðu um nokkur ákvæði sem væru þá breyting við núgildandi stjórnarskrá. Auðlindaákvæðið var eitt af því eins og við nefndum í því sambandi. En eins og rifjað (Forseti hringir.) hefur verið upp nokkrum sinnum í þessari umræðu var því hafnað af stjórnarflokkunum á þeim tíma og það var ekki fyrr en þeir voru búnir að sigla málinu í heild fullkomlega í strand að þeir urðu tilbúnir að ræða einstök ákvæði.