141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:13]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Stjórnarskráin er merkilegt plagg í sögu hverrar þjóðar. Hún er viðmiðun, hún er markmið, hún er hvatning, hún er í rauninni ljóð sem allir geta verið sammála um að sé gott ljóð, eiga að vera sammála um að sé gott ljóð, fyrr á hún ekki að birtast. Það á að vera hægt að taka tillit til hennar án þess að nokkur meinsemd eða meinsæri felist í því.

Stjórnarskráin sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að kynna og vill semja yrði tímamótastjórnarskrá að því leyti að hún mundi skapa mestu atvinnusköpun sem um getur í sögu íslensku þjóðarinnar. Hún mundi auka atvinnu íslenskra lögfræðinga svo skipti þúsundum starfa vegna þess að stjórnarskráin eins og hún liggur á borðinu er plagg sem er eins og línuflækja á bát, það er allt í kuðli, engir endar og endalausir flækjufætur. Þetta er það sem við erum að véla um í dag og með ólíkindum að boðið skuli vera upp á slík vinnubrögð.

Þau hafa tíðkast nokkuð á undanförnum árum, í tíð þessarar svokallaðrar fyrstu vinstri stjórnar í sögu lýðveldisins, óvönduð vinnubrögð. Það er eins og íslensk stjórnvöld séu í starfsfræðslu eða á fyrsta degi sem erlendir skiptinemar á Íslandi. Það er engin reynsla, ekkert verksvit, a.m.k. mjög takmarkað. Stjórnarskrá getur ekki byggst á gylliboðum og væntingum nema að textinn sé kórréttur. Þannig þarf texti stjórnarskrárinnar að vera. Sú stjórnarskrá sem við Íslendingar höfum er í sjálfu sér alveg fullboðleg. Það eru tvö atriði sem valda því að menn deila. Annars vegar er það að festa atriði varðandi auðlindir Íslendinga í ríkiseign, þjóðareign — það er stigsmunur á því en það er sama meining. Hins vegar er það hlutverk forseta Íslands í stjórnarskránni. Þarna eru lausir endar á öðrum þættinum, því er lýtur að forseta Íslands. Í íslenskum lögum er í gadda slegið að eign þjóðarinnar er tryggð á auðlindum Íslendinga til sjávar og sveita. En það er ágætisviðbót og sjálfsögð og óumdeilanleg að hnýta þann þátt einnig inn í nýja eða endurgerða stjórnarskrá. Önnur atriði eru í rauninni ekki deiluatriði.

Þegar maður slakar út sýndarmennskunni, hégómanum, menntahrokanum, gylliboðunum og ýmsu sem viðgengst í þjóðfélagi okkar í dag, þar sem er í raun litið niður á þá sem minnst mega sín, litið niður á þá sem elstir eru og búa yfir mestri reynslu og gengið að þeim frekar en öðrum þegnum í þjóðfélaginu, skiptir miklu máli að tryggja, við gerð stjórnarskrárinnar, að menn sitji við sama borð. Stjórnarskráin er ekki hafin yfir til að mynda gerð fjárlaga því öll lög á Íslandi eru háð fjárlögum, en viðmiðunin getur samt verið klár, markmiðið og verkreglurnar. Það væri í rauninni hægt að breyta þeirri stjórnarskrá sem nú er við lýði, breyta henni svo að allir mættu vel við una með kannski 15–20 viðbótarsetningum. Flóknara er nú ekki dæmið. En því hefur verið þvælt inn í alls konar vinahópa, klíkur, hópa fólks sem hafa kvartað meira en margir sem hafa þó frekar ástæðu til þess og þeir hafa verið settir í það hlutverk að sníða stakk fyrir nýja stjórnarskrá. Ég ætla ekki að fara að nefna nöfn ýmissa sem hafa siglt á hæsta kambi í þeim efnum en þar er fólk sem er ekki í takt við hina venjulegu gerð Íslendinga, hið venjulega og almenna brjóstvit Íslendinga og reynslu og verksvit. Þeir eru bara ekki í takt við það.

Manni dettur stundum í hug að þetta sé kannski einhver arfleifð frá 68-kynslóðinni sem vildi fá allt upp í hendurnar án þess að skila verðmætum í staðinn, verðmætum í vinnu, hugviti eða hverju sem er. Nú á að færa það aftur inn í umræðuna að tryggja mönnum aðgang að launum og réttindum án þess að nokkur eðlileg reynsla búi þar að baki eða verksvit. Þess vegna er ljóst að það verður aðalmál málanna og aðalverkefnið á Íslandi um árabil, ef þessi stjórnarskrá verður samþykkt eins og hún liggur fyrir, aðalatvinnusköpunin fyrir lögfræðinga, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, störf fyrir lögfræðinga. Þúsundir lögfræðinga stæðu í deilum um það fyrir hönd fólks að það ætti rétt á þessu og hinu samkvæmt stjórnarskránni. Hún er eins og fjaðrafok.

Þess vegna er ljóst að það eina sem er hægt að gera og verður að gera í stöðunni er að safna saman þeim upplýsingum sem hafa áunnist á undanförnum árum, þeim upplýsingum þar sem stórir hópar fólks hafa komið við sögu með slembiúrtaki o.s.frv., og fela síðan færustu lögskýringarfræðingum Íslendinga, stjórnsýslufræðingum, lögfræðingum, prófessorum, reyndustu mönnum landsins í gerð laga, að sníða stakk úr þeim gögnum sem liggja fyrir, stakk sem er boðlegur og skotheldur í þeim þætti þjóðfélagsins sem við köllum stjórnarskrá. Þetta er ekkert flóknara. Það verður að komast út úr þessari torgumræðu og endalausum sérhagsmunahugdettum ýmissa manna sem telja sig vera eina og sér fullgilda til að semja stjórnarskrá fyrir eina þjóð. Þannig er svo margt í þessum efnum sem veldur skelfilega miklum áhyggjum. Léleg vinnubrögð í svo mörgum þáttum.

Við skulum taka annað atriði til samanburðar við vinnubrögðin við gerð nýrrar stjórnarskrár, gerð nýrra laga um fiskveiðistjórn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það eru lög sem eru út úr kortinu, eins og sagt er til sjós. Þau blása til allra átta, það er ekkert aðhald, ekkert raunverulegt, ekkert hugsað um stöðu og styrk byggðanna í landinu heldur eiga geðþóttaákvarðanir að ráða. Allir helstu sérfræðingar landsins í sjávarútvegi og í lögum, sérfræðingar frá háskólum Íslendinga, vara við því eins og með stjórnarskrárdrögin að þetta séu óbrúkleg plögg sem þarf að vinna miklu betur. Það er það eina sem við eigum að hafa metnað til að gera, að vinna gögnin þannig að þau séu til árangurs, til aukinnar hagsældar og skapi vissu en ekki óvissu. Þetta er því miður á þennan hátt.

Annað dæmi sem má nefna eru vinnubrögðin við rammaáætlun sem var lögð mikil vinna í á margra ára tímabili að hnýta upp þannig að sátt væri um hana, þannig að tekið væri tillit til sérfræðiþekkingar, reynslu og möguleika og hverrar einingar sem um var að ræða. Lögð var höfuðáhersla á að ekki væru pólitísk fingraför á niðurstöðum rammaáætlunar. Hvað skeður? Rammaáætlun er skilað í sátt þeirra sem eiga gerst að þekkja án pólitískra fingrafara þótt auðvitað hafi verið deildar skoðanir um margt í þeirri áætlun. Hún er færð til ríkisstjórnarinnar og þá er fjandinn laus. Þá byrja klíkurnar, sellurnar og sérvitringarnir í hópi þess vænlega liðs, eða hitt þó heldur. Þeir byrja að hræra í þessu og breyta eftir eigin geðþótta þvert á það sem var vilji og meining stjórnvalda þegar vinnan var sett af stað.

Það er því miður svo áberandi í okkar þjóðfélagi í dag upplausn, pirringur, öfund, reiði af ýmsum ástæðum, mest fjármálalegum, og er fullkomlega skiljanlegt vegna þess að allt er í lausu lofti. Það er ekki tekið á neinu sem skiptir máli, heimilunum er stungið ofan í skúffu og farið að huga að þáttum eins og að leggja höfuðáherslu á endurnýjun stjórnarskrárinnar sem skiptir engu máli í þessu sambandi. Við þurfum að klára stjórnarskrána og gera það myndarlega en hún verður að vera unnin í sátt, eins mikilli sátt og unnt er, ekki með aðferðum nashyrninganna sem fara á fleygiferð inn í hvað sem er til að brjóta niður það sem er fram undan.

Þetta er þáttur sem núverandi ríkisstjórn hefur gersamlega brugðist í að leysa og ekki nóg með það, þetta er orðin meinsemd í þjóðfélaginu því að hæstv. ríkisstjórn virðist kappkosta með þessum vinnubrögðum, óöryggi og stjórnleysi að etja mönnum saman. Hún virðist kappkosta að reyna að gera Íslendinga að leiðindadurgum og ríkisstjórnin fer fremst í flokki í þeim hópi.

Það er mjög mikilvægt að ganga til leiks með bjartsýni og von, dug og þor og hafa gaman af hlutunum. Á grunni alvörunnar er gott að byggja gamansemina þannig að lífið verði skemmtilegt en ekki leiðinlegt. Það hefur enginn sagt að lífið sé alltaf skemmtilegt en það er ótrúlega mikið af fólki, ekki síst í stjórnmálum í dag og kerfinu okkar, sem gerir lífið leiðinlegt.

Það er til að mynda eitt sem þarf að tryggja í stjórnarskrá og er í anda hennar, að ekki sé endalaust verið að hamra og berja á þeim sem vel gengur. Í gegnum tíðina hafa stjórnvöld á Íslandi og kerfið í heild ótrúlega oft skapað sterka kafla þar sem ráðist er á þá sem berjast við að byggja upp í þessu landi, skapa atvinnu, skapa þróun, skapa leið inn í framtíðina með betri hagsæld og meiri hamingju, því það fylgist að. Þó að hagsældin sé enginn mælikvarði á hamingjuna fylgist það samt að. Það fylgist að ef fólki líður vel, ef það er laust við endalausa óvissu og ótta, tortryggni, pirring, þreytu, þá líður því betur og það eykur hamingjuna sem skiptir máli.

Við erum að mörgu leyti á tímamótum. Við erum að vinna á vettvangi Alþingis með stóran hóp fólks sem hefur nánast enga reynslu og enga verkþekkingu. Það kemur úr skólunum, sem er ágætt út af fyrir sig, svona fræðslunámskeið, en það kemur inn á Alþingi og heldur að það viti allt og geti allt. Það þarf ekki einu sinni að bera saman bækur við þá sem vinna með höndum og hug úti í þjóðfélaginu. Það kemur með teoríur.

Gott dæmi er Seðlabanki Íslands. Ekkert fyrir löngu jók Seðlabanki Íslands fjölda starfa á lögfræðisviði og tengdum þáttum úr að mig minnir 90 störfum í líklega 140. Á hverju byggðist það? Það byggðist á því að þeir ætluðu að tálga lögfræðingana eins og hentaði að teoríu Seðlabankans. Ekki hugmyndafræði eða aðstæðum og möguleikum atvinnulífsins í landinu, nei, það átti að passa fyrir innsaumaða kenningu Seðlabankans í kringum rassinn á sjálfum sér. Þessum hópi sérfræðinga er síðan att út í þjóðfélagið og hann látinn ráðast á þá sem hafa sýnt hvað mestan dug í samfélaginu, tekið gífurlega áhættu, lagt mikið undir, lagt mikinn metnað í það sem þeir eru að gera. Það á að dæma þá, afgreiða þá sem glæpamenn. Það á að slá þá af samkvæmt vilja Seðlabankans.

Gott dæmi er fyrirtækið Samherji sem Seðlabankinn hefur verið að hossast á um langan tíma án þess að hafa nokkur rök fyrir því, nokkuð borðleggjandi, nokkuð sem hægt er að segja að sé á ákveðinn hátt. Þeir hafa dæmt og reynt að taka af lífi bæði stjórnendur Samherja og fyrirtækið sjálft, eitt öflugasta fyrirtæki á Íslandi með sterk samskipti við Þýskaland, sterk samskipti við Færeyjar. Þeir hafa ekki drepið neinn, það er alveg klárt, þó að alltaf geti verið umdeildar skoðanir í mörgu sem varðar rekstur fyrirtækja. Þetta er íslenska samfélagið í dag, helsjúkt og skemmt, og veldur því að fólki líður illa í okkar landi. Það er ekki boðlegt.

Það eru að verða 70 ár síðan Ísland varð sjálfstætt lýðveldi með stjórnarskrá sem hefur dugað okkur ágætlega þótt alltaf megi breyta og bæta. En það er aldrei mikið. Það er mikill vandi að smíða stjórnarskrá, til að mynda bara þátturinn sem varðar eign og rétt þjóðarinnar á auðlindunum. Það er mikill vandi að setja saman þannig texta sem stenst fyrir alþjóðlegum dómstólum. Þetta er mikill kóngulóarvefur sem menn verða að kunna á, vita að hverju má gæta, vita hvað má vera, hvar er of langt gengið og meta hvar er oft stutt gengið. Þetta er niðurstaðan við að semja þetta þjóðarljóð, stjórnarskrána.

Árið 1944 var íslenska lýðveldið stofnað á Þingvöllum. Það var brjálað veður. Það var ausandi rigning og rok, en það var glöð þjóð sem stóð þar í barningnum og horfði til framtíðarinnar með því að vinna saman í sátt og samlyndi eins og ein fjölskylda inn í nýja framtíð eftir 700 ára baráttu fyrir því að verða sjálfstæð þjóð. Í dag er ríkisstjórn á Íslandi sem er að djöflast í að brjóta niður sjálfstæði Íslendinga, leggja það í súr, ef ekki henda því á haugana með því að sækja um inngöngu í Evrópusambandið sem hefur mikinn áhuga á því að Ísland verði þar aðili vegna þess að það sér Ísland sem konfektmola, það sér Ísland sem bita sem þeir mundu kokgleypa. Og ef við viljum sjálf kalla Ísland fisk í þessu dæmi þá mundu þeir ekki einu sinni skyrpa beininu þegar þeir kyngdu Íslandi. Þetta er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við og við verðum að velja og hafna. Það er munur að vera maður eða ekki.

Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, orti ljóð um 17. júní á Þingvöllum 1944. Ég hygg að þetta ljóð hafi aldrei birst. Það á fullt erindi við okkur í dag, hvort sem við erum að vinna eins og menn að því að reyna að gera stjórnarskrá með nýjum endurbótum eða annað sem þarf að vinna að í okkar þjóðfélagi sem á að skila okkur árangri. Alveg sama hvort það er staða heimilanna, staða sjúkrahúsanna, staða vegakerfisins, rammaáætlun, sjávarútvegsstefnan sem er lykillinn að velsæld okkar í nútíð og framtíð. Þetta eru allt þættir sem skipta máli og ef við sinnum þeim ekki og ræktum þá ekki höfum við brugðist gersamlega skyldu okkar fyrir hönd Íslands og íslensku þjóðarinnar.

Ljóð Matthíasar Johannessens, með leyfi forseta, 17. júní 1944:

Vér stofnum lýðveldi, stóðumst ei lengur

að stjórna oss sjálf eins og vera ber.

Í brjóstinu hafði hljómað sá strengur

sem hljómar víst enn í brjóstinu á þér.

Það var rigning og úði og allir í frökkum

og alþingismenn með titrandi rödd

og Almannagjá var kvik af krökkum

en kjöldregin veröldin illa stödd.

Þeir börðust í útlöndum, Bretar og fleiri

og böðullinn Hitler sló kalsár í tún

en heima varð rigningin meiri og meiri

og mæddi á lýðveldisfána við hún.

Svo héldu þeir ræður sem rokið kæfði

því rokið var ekki með hátíðarsvip

en ilmur af lyngi var andsvar sem hæfði

þótt endalaus skýin lækju eins og hrip.

Þeir lýstu því yfir að lýðveldið væri

sú leið sem vort fólk hefði valið og þráð

og þjóðin hún veldi eins og vera bæri

að vera ekki lengur öðrum háð.

Og landið var umvafið ást þeirra og hlýju

og orðum sem skullu á hlustum hvers manns.

Þeir ætluðu að reisa Ísland að nýju

úr öskustó þessa fátæka lands.

En Ísland er meira en allt sem vér þráum

í eilífri hringiðu skvaldurs og glaums.

Það er þögnin í víði og þytur í stráum

og þrastarkliður vors fjarlæga draums.

Þetta er ilmurinn sem við ættum að leggja út af við gerð nýrrar stjórnarskrár, við þau vinnubrögð sem við viljum túlka og vinna að í okkar landi.

Það er sorglegt þegar menn bregðast skyldum sínum við það að verja sjálfstæði Íslands, búa til gylliboð, væntingar, sýndarmennsku, falsvonir, bjóða upp á frítt rauðvín á götutorgum í París, Brussel eða Genf, en gefa skít í það að við þurfum líka að flaka fisk og sinna því sem skiptir máli fyrir þá veltu sem við þurfum á Íslandi til að tryggja stöðu heimilanna, rekstur fyrirtækjanna, umsvif samfélagsins. Þetta helst allt í hendur og það verður ekki hjá því komist að þora í þeim efnum.

Ég tek eitt smádæmi enn þá til samanburðar við vinnubrögðin við gerð endurnýjaðrar stjórnarskrár. Það eru vinnubrögð, blaður, bull og vitleysa sem hefur nú staðið yfir í áratugi varðandi Reykjavíkurflugvöll. Þetta er dæmigert fyrir vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og dulunnar sem fylgir með, Vinstri grænna. Reykjavíkurflugvöllur er lykill landsbyggðarinnar að höfuðborg sinni og gagnkvæmt. Reykjavíkurflugvöllur er skemmsta leiðin fyrir fólkið á allri landsbyggðinni nánast að komast til höfuðborgarinnar, nýta þar þjónustu þar sem borgin sjálf hefur forskot, heilbrigðisþjónustu, stofnanaþjónustu, alls konar þjónustu í svo mörgum þáttum sem lúta bæði að menntakerfi, heilbrigðiskerfi og atvinnulífi. Reykjavíkurflugvöllur skapar ekki bara þúsund störf á vellinum sjálfum. Reykjavíkurflugvöllur skapar þúsundir starfa í Reykjavík, í þjónustu, verslun, hótelum, stofnunum, heilbrigðisþjónustunni o.s.frv. Yfir 500 sjúkraflug eru á hverju ári að Landspítala Íslands – háskólasjúkrahúsi við Reykjavíkurflugvöll. Svo kemur hluti af sjúkraflugi frá þyrlubúskapnum, en það er innan við 5% af sjúkraflugi á Íslandi.

Svo tala menn um það eins og það sé einhver vitglóra í því að færa Reykjavíkurflugvöll. Borgarfulltrúi í gær var í útvarpsviðtali og sagði að menn ættu bara að vera á hjólum og byggja flugvöll uppi á Hólmsheiði. Það eru 30 ár síðan fyrir lá að Hólmsheiði verður aldrei brúkleg sem flugvallarstæði vegna þess að hún er of nálægt Esjunni. Það er ekki möguleiki að taka blindaðflug að flugvelli sem yrði á Hólmsheiði vegna Esjunnar úr norðri. Bara það slær Hólmsheiðina út af borðinu. Nei, þá koma allir sérfræðingarnir sem eru að safna liði fyrir kosningar núna, Samfylkingin lætur mynda sig í bak og fyrir og þykist vera búin að leysa málið. Þetta eru allt falsvonir, falsvonir og aftur falsvonir. Það er skelfilegt að menn skuli leyfa sér að bjóða upp á slíkt.

Allir þættir þessa máls hafa verið gegnumkannaðir á 30 ára tímabili. Ég hef átt sæti í flugráði í yfir 15 ár, í samgöngunefnd yfir 20 ár. Það er búið að ganga í gegnum þetta allt saman, alveg sama hvort það er Skerjafjörðurinn, Álftanes, Hvassahraun — þetta er óbrúklegt. Nei, þá ætla þeir sem eru að reyna að svindla inn fölskum pakkningum, einhverjum gjöfum eins og því að færa Reykjavíkurflugvöll þaðan sem hann er, að leysa þetta með því að panta niðurstöðu hjá verkfræðistofu. Það er ekkert nýtt í okkar samfélagi. Maður er búinn að læra margt og upplifa margt á þessum árum.

Á sínum tíma pantaði Vegagerðin niðurstöðu hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens varðandi jarðgöng milli lands og Eyja. Það var skelfileg niðurstaða og margir sem höfðu mikið álit á þessari verkfræðistofu töpuðu því á einu augabragði. Bara eftir fyrsta fund sérfræðinga sem vildu fara yfir niðurstöður verkfræðistofunnar lækkuðu kostnaðartölur um 60–70%.

Mannvit verkfræðistofa vann verk fyrir meiri hluta borgarstjórnar um Hólmsheiði og skilaði niðurstöðu, fínni niðurstöðu, ekkert vandamál, flugvöll á Hólmsheiði. Svo fara menn að glugga í staðreyndirnar. Hvað vantaði inn í? Jú, það gleymdist á flugvallarsvæðinu að meta vindana sem leika um Hólmsheiðina í nálægð Esjunnar, það gleymdist. Vindarnir eru þó aðalatriðið við flugvallargerð. Þá hrundu áætlanir, bara við þetta eina atriði, þau eru mörg fleiri, fyrir utan að völlurinn yrði lokaður í a.m.k. mánuð á ári sem er óbrúklegt, og þó ekki væri nema eingöngu vegna þess að ekki er hægt að fara blindflug úr norðri að flugvallarstæði á Hólmsheiði vegna þess að Esjan er á sínum stað. Ekki ætla menn að færa Esjuna, og þó. Það kann að vera að þeir hugsi þannig. En þetta er allt laust í reipunum, engin skynsemi og í rauninni gersamlega óbrúkleg og vonlaus vinnubrögð. Ég held að það skipti mjög miklu máli að menn taki nú við sér og taki upp skynsamlegri vinnubrögð, vinnubrögð sem byggjast á reynslu og ekki endalausum falsvonum og gylliboðum.

Þessi borgarfulltrúi sem ég minntist á áðan sagði bara að menn ættu að fara á reiðhjólinu sínu upp á Hólmsheiði. Ég man nú einu sinni sem fréttamaður fyrir margt löngu að þá voru rollukarlar með rollur á Hólmsheiðinni. Þeir urðu stundum tepptir á Hólmsheiðinni á vetrum en þeir komust ekki til baka til byggða vegna ófærðar. Þá sváfu þeir í hlöðunni, sváfu þétt og skemmtu sér því þeir áttu nóg af landa. En veðrin hafa ekkert breyst þarna þótt eitthvað annað hafi breyst.

Það er því mikilvægt, virðulegi forseti, að hætta þessu karpi í þingsölum (Gripið fram í: Rétt.) um fánýti og heimskuleg vinnubrögð. Hætta þessu karpi, slíðra og setja þetta mál, sem á að vera mikið metnaðarmál fyrir íslenska þjóð, í þann farveg að það sé unnið af þeim sem best kunna að tengja saman orð, athafnir og vilja í lagasmíð fyrir okkur Íslendinga. Síðan kæmi það til meðferðar þings og þjóðar. En þetta bull, þessi tilboð að redda úr einni lestinni yfir í aðra ónýtum fiski, það er ekki sá metnaður sem við Íslendingar ættum að standa í.

Þetta er eitt af mörgu því sem er til stórkostlegrar skammar fyrir hæstv. ríkisstjórn sem situr núna uppi með að skila Íslendingum fjórum ónýtum árum í stjórnsýslu landsins. Þau hafa kostað mikla peninga fyrir heimilin, fyrir alla aðila heimilanna, elstu og yngstu, fyrir atvinnulífið, fyrir þjóðina í heild. Við verðum að komast út úr þessum darraðardansi og gyllingum.