141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:55]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kappræðan, rökræðurnar markast fyrst og fremst að mínu mati af langri reynslu af því hvort menn vita hvað þeir eru að fjalla um. Mikið hefur skort á það að mínu mati, með virðingu fyrir öllum sem hlut eiga að máli, að fólk fjallar um hluti sem það hefur ekki kynnt sér. Það er skyldumæting í ræðustól og fólk fer í ræðustól til að tala án þess að hafa nokkuð til málanna að leggja. Þar sem umræða fer fram á grunni, þar sem menn þekkja það sem þeir fjalla um þá verður ekki það karp og sú vitleysa sem oft kemur upp í hv. Alþingi. Þá fer það í farveg sem er á skynsemisnótum.

Ég nefndi bara eitt dæmi. Kjaftað hefur verið um Reykjavíkurflugvöll í 30 ár. Það vita allir sem þekkja málin ofan í kjölinn og saumana miðað við kerfi landsins og uppbygginguna, heilbrigðiskerfið, staðsetningu sjúkrahúsa og þjónustu að Reykjavíkurflugvöllur verður aldrei lagður af, ekki næstu áratugina, ekki á meðan flugvélar þurfa að fljúga með vængjum. Það segir sig sjálft. Hitt er bara gyllivon og blekking og til skammar fyrir þá sem reyna að halda því á lofti.

Það þarf að breyta tvennu; í fyrsta lagi stjórnarskránni, tryggja auðlindaákvæðið, það er þjóðarsálarmetnaður, og í öðru lagi að hnýta upp það sem lýtur að forseta Íslands og stöðu hans.