141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:59]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef menn vilja slátra innanlandsfluginu þá leggja þeir Reykjavíkurflugvöll niður. Akureyringar fljúga ekki til Keflavíkur (HöskÞ: Rétt.) til að komast til Reykjavíkur, ekki heldur Ísfirðingar eða Héraðsbúar. Þetta kemur síst við Vestmannaeyjar í sjálfu sér því að þar eru aðrar leiðir yfirleitt mögulegar og batna væntanlega með betri stöðu stjórnvalda. En þetta er mergurinn málsins og það þýðir ekkert að vera að berja höfðinu við steininn í þeim efnum.

Það sem breyta þarf varðandi stöðu forseta Íslands og stjórnarskrárinnar er að taka forsetann úr þeirri gildru sem hann er í. Forseti Íslands á ekki að geta ráðið einn hvort mál fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki. Það er ekki einu sinni hægt að hafa slík lög í Afríku. Þegar forsetinn tók afstöðu gagnvart Icesave á sínum tíma — við verðum að segja sem betur fer fyrir Ísland — þá hafði hann ekkert umboð til þess og ekkert vald. Hann hafði í rauninni um tvennt að velja: Hann var sjálfur mjög óvinsæll hjá þjóðinni af því að hann hafði verið klappstýra ríkisstjórnarflokkanna í útrásinni. Hann þurfti að velja um það að bjarga ríkisstjórninni eða sjálfum sér. Aldrei þessu vant valdi hann sjálfan sig. Forseti á ekki að geta verið í slíkri stöðu. Það er ekki alvöruþjóð sem byggir á svona reglum. Það þarf að tryggja að ákveðinn lágmarksfjöldi þingmanna eða kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að mál sem eru talsvert umdeild geti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forsetann út. Forsetinn er afgangur af danska konungsdæminu og er rekinn eins og drottningarstaða í dag með alls konar snobbi og vitleysu. Það er margt gott (Forseti hringir.) sem blessaður forsetinn gerir en það á ekki að setja hann í þessa gildru.