141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:06]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum þá sammála um að auðlindaákvæðið sem lagt hefur verið til við stjórnarskrána sé ágætt og við eigum því báðir að geta staðið að því enda er það rauði þráðurinn í stjórnarskrá sérhvers lands, þ.e. hvernig fara á með sameiginlegar auðlindir, sameiginlegar eignir þjóðar. Það má segja að þetta sé kjarni allra deilna og umræðu um stjórnarskrárbreytingar og stjórnarskrá í flestum löndum, m.a. hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Ég er ánægður með það viðhorf hv. þingmanns að ákvæðið sem hér liggur fyrir sé ásættanlegt og að menn geti staðið á bak við það.

Þá spyr ég hv. þingmann út í það ákvæði sem við erum að ræða sérstaklega núna, varðandi breytingar á stjórnarskránni, þar sem hv. þingmaður telur að rétt sé að breyta stjórnarskránni á næsta ári og standa almennilega að því eins og hann orðaði það. Ég tel aðdragandann að þessum breytingum hafa verið ágætan eins og reyndar umræðurnar um tillögurnar sem hér liggja fyrir. Umræður hafa staðið yfir í mörg ár og verið með ýmsum hætti. Það er svo sem ekki mikið gert á einu ári í því sambandi en hvað um það. Ég get fallist á það með hv. þingmanni að rétt sé að miða við þetta. Breytingarákvæðið sem við fjöllum um hér í dag fjallar einmitt um að hægt verði að breyta stjórnarskránni á einu ári með tilteknum hætti, ekki þurfi að rjúfa þing o.s.frv. til að gera það.

Hver er afstaða hv. þingmanns til þess ákvæðis sem við ræðum hér hvað það varðar hvernig breyta megi stjórnarskránni? Þá liggur sömuleiðis fyrir breytingartillaga við þá tillögu sem þrengir þann möguleika aðeins, þ.e. að fleiri þurfi að koma að til að staðfesta breytingarnar, bæði þing og þjóð. Hver er afstaða hv. þingmanns til þess ákvæðis?