141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[13:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mér þykir gott að þingið skapi svigrúm til að ræða skýrslu um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Það er hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem óskaði eftir þessari umræðu en margir, sem hafa viljað fá þessa umræðu, hafa tekið í sama streng og tel ég það hið besta mál. Það er mikilvægt að fá umræðuna þótt skýrslan hafi verið lögð fram á þingi 16. mars, ívið síðar en við ætluðum að hafa hana tilbúna, í byrjun marsmánaðar.

Örlítið um aðdraganda þessarar skýrslu. Hún byggir á þingsályktunartillögu sem samþykkt var samhljóða á Alþingi 19. júní árið 2012. Þá hafði verið flutt tillaga til þingsályktunar undir forustu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, en 12 meðflutningsmenn voru þar úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Áður hafði hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson flutt samsvarandi mál en það hafði þá ekki náð fram að ganga. Þetta er aðdragandi þess að við erum með þessa skýrslu á borðum.

Ég vil láta þess getið að til hliðar við þessa vinnu, sem er mjög lofsverð, lét ég sem innanríkisráðherra vinna skýrslu í mínar hendur til kynningar í ríkisstjórn í fyrrahaust. Það var eftir að ríkislögreglustjóri hafði farið um landið og fundað með fulltrúum lögregluembættanna víðs vegar um land. Hann gaf mér síðan mjög rækilega skýrslu eða frásögn af þessum fundum og kvað mjög sterkt að orði um að nú væri svo komið að við yrðum að snúa af braut niðurskurðar og þyrftum þvert á móti að bæta fjármagni til löggæslunnar, annars gæti illa farið. Ég fór með þá skýrslu í ríkisstjórn. Hún var síðan rædd hér á Alþingi en í henni kom fram hve mikill niðurskurðurinn til löggæslunnar hefur verið á undangengnum árum eins og reyndar í allri opinberri starfsemi. Mér reiknast til að í stofnunum sem heyra undir innanríkisráðuneytið nemi niðurskurðurinn um 20% að raungildi. Það kemur heim og saman við þær tölur sem við horfum á hjá löggæslunni.

Við þekkjum öll skýringarnar á þessu. Það er vegna þess að tekjur ríkissjóðs, tekjur hins opinbera — það á við um sveitarfélögin líka — hrundu í kjölfar efnahagshrunsins, bankahrunsins. Þannig að við urðum að bregðast við með blöndu af skattahækkunum og niðurskurði.

Í þessari úttekt kom í ljós að rekstrarfjárheimildir löggæsluembætta, sem verið höfðu rúmir 11 milljarðar, 11,1 milljarður árið 2007, voru á árinu 2011 komnar niður í 8,4 milljarða rétt tæpa. Þetta er niðurskurður sem nemur um 2,8 milljörðum kr. að raungildi. Það segir sig sjálft að slíkur niðurskurður þýðir mannafækkun og herðir að löggæsluembættunum á margvíslega lund. Þau hafa síðan fyrir sitt leyti, og við fyrir okkar leyti, sem stýrum þessum málum að því marki sem eitt ráðuneyti gerir, reynt að finna leiðir til hagræðingar, finna með hvaða hætti við gætum ráðstafað þeim fjármunum sem við á annað borð hefðum úr að moða á sem hagkvæmastan hátt.

Þessi skýrsla sem kom fyrir ríkisstjórn í október 2012 og síðan til umfjöllunar af hálfu þingmanna hér í þinginu sýndi sem sagt fram á þetta. Sú umræða varð til þess, hygg ég, að skapa samstöðu um það í þinginu að veita viðbótarfjármagni til lögreglunnar á síðustu metrum við gerð fjárlaga. Þá ákvað Alþingi að setja 200 milljónir til löggæslunnar sem síðan hefur verið ráðstafað eftir sérstökum reikniformúlum sem byggt var á til að gæta jafnræðis og samræmis. En þá þannig að það kæmi sér vel fyrir þau lögregluembætti sem væru verulega aðþrengd.

Í þeirri skýrslu sem við erum hér með til umfjöllunar er lagt til að menn reyni að mynda sameiginlegan þrýsting, mynda um það samstöðu að á komandi árum verjum við umtalsverðum fjármunum til löggæslunnar til að reisa hana við að nýju þannig að hún standi eigi verr að vígi en fyrir hrun, og gott betur reyndar. Þarna nefndi ég töluna 2,8 milljarðar. Nefndin telur að auka þurfi fjármagn til lögreglunnar sem nemur 3,5 milljörðum kr., og þá er ég að tala um á hverju ári.

Nú gefur það augaleið að ekkert þing getur lofað fram í tímann. Ég get að sjálfsögðu ekki gert það fremur en nefndarmenn sem tóku þátt í þessari vinnu. Ekkert okkar getur lofað neinu því að þá gætum við verið farin að lofa upp í ermina á okkur. En það er mikilvægt að taka alvarlega áskorun nefndarinnar um að við reynum að mynda þverpólitíska samstöðu um að gera bragarbót. Það er hið sögulega við starf þessarar nefndar, tel ég vera, að þarna setja fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi fram tillögur og lýsa yfir þeim ásetningi að beita sér í þessa veru. Síðan verður það að ráðast af því hver fjárhagur ríkissjóðs kemur til með að verða á komandi árum, óháð því hvaða ríkisstjórn situr. Við þurfum að vera sanngjörn þegar við förum síðan að kveða upp dóma í þessu efni, en minnast þess að við höfum með þessum hætti reynt að stuðla að sameiginlegri aðkomu að málinu.

Þannig hefur það reyndar verið um löggæslumálin í mörgum atriðum. Ég vísa þar til frumkvæðis allsherjarnefndar og þakka sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir framgöngu hans í málum fyrr og nú til þess einmitt að skapa samstöðu um mikilvæga þætti eins og í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Hvað er það sem nefndin vill leggja áherslu á? Í fyrsta lagi telur hún að við þurfum að horfa sérstaklega til lögreglunnar á landsbyggðinni, það sé mikilvægt að horfa til lögreglunnar á landsbyggðinni. Undir það sjónarmið get ég heilshugar tekið. Það eru ýmis svæði sem eru illa mönnuð, mjög fáir starfsmenn á vakt á stórum landsvæðum, það er að sjálfsögðu ekki boðlegt, bæði gagnvart þeim einstaklingum sem í hlut eiga og sinna þessum mikilvægu verkefnum, en einnig að sjálfsögðu gagnvart því fólki sem þarna byggir.

Síðan er talað um að efla þurfi löggæsluna almennt. Vikið er sérstaklega að búnaði fyrir lögregluna, margvíslegum varnarbúnaði og búnaði sem er nauðsynlegt fyrir lögregluna að hafa á hendi. Síðan er einnig vikið að menntun, að efla þurfi og bæta aðstöðu lögreglunnar til að mennta sitt fólk. Það á við um lögregluna eins og allar stéttir, að við eigum stöðugt að vera á tánum yfir því að leita eftir nýjungum og hafa þá menntun sem í boði er í landinu sem allra besta.

Ráðuneytið hefur að sjálfsögðu komið að þessari vinnu. Formennsku hafði Þórunn Hafstein, deildarstjóri almannaöryggis hjá ráðuneytinu. Þær upplýsingar sem unnar voru, bæði fyrir þessa skýrslu og einnig skýrsluna sem ég gat um í október, voru unnar af nefnd sem skipuð var fulltrúum ráðuneytisins, frá skrifstofu almannaöryggis og rekstrarskrifstofu ráðuneytisins, en síðan unnin í mjög nánu samstarfi og samvinnu við lögregluna. Það á við um þessa skýrslu sem við ræðum hér núna að þar kom lögreglan einnig að málum með sína sérþekkingu, bæði lögreglan sem stofnun og Landssamband lögreglumanna.

Ég ítreka þakkir fyrir að við fáum tækifæri til að ræða þessa skýrslu. Síðan eigum við eftir að taka upp þráðinn, þau okkar sem verða á Alþingi hér í vor og í haust, til að stuðla að því að þessar tillögur geti orðið að veruleika.