141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[13:52]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu. Ég held að hún sé afar þörf. Ég naut þeirra forréttinda að fá að sitja í þeim starfshópi sem skilaði þessari skýrslu. Í henni fór fram góð og málefnaleg vinna þar sem pólitískir flokkar skiptu ekki máli, það var í raun og veru bara sá mannauður sem sat í þeim starfshópi sem skipti máli. Ég verð að viðurkenna að þar sem ég er enginn sérfræðingur í málaflokknum var það afar lærdómsrík vinna. Ég veit mun meira um aðstæður lögreglunnar, hverjar áherslur hennar eru og helstu verkefni eftir þá vinnu.

Við stöndum auðvitað frammi fyrir því að verið hefur verulegur niðurskurður í fjárframlögum til lögreglunnar eins og til svo margra annarra málaflokka. Þessi málaflokkur eins og margir aðrir er algjörlega kominn að sársaukamörkum. Það sem var gott við vinnuna í þessum hópi var að það voru engar ásakanir í því efni, það gera sér allir grein fyrir því frammi fyrir hvaða verkefni við stóðum þegar við tókum hér við eftir fordæmalaust hrun efnahags landsins.

En ég þakka kærlega fyrir góða vinnu og vona svo sannarlega að þetta verði ekki skýrsla sem verður bara sett upp í hillu og að ekki verði farið eftir henni vegna þess að mér finnst niðurstaðan vera praktísk og skýr.

Mig langar til þess að tæpa á örfáum atriðum í skýrslunni. Þar er talsvert talað um lögregluna og samfélagið þar sem minnt er á hvað það skiptir miklu máli að lögreglan eigi gott samstarf við almenning, að hún vinni að forvarnarstarfi og eins að treysta verði gott samstarf við sveitarfélögin í landinu. Það er á engan hátt tekin afstaða til fækkunar lögregluumdæmanna þótt ég telji að við verðum að skoða það af einlægum hug og hin góðu tengsl við nærsamfélagið mega ekki bresta við þá stækkun.

Fyrst og fremst er hér talað um nauðsyn þess að efla almenna löggæslu, búnað og þjálfun og að byrja þurfi á landsbyggðinni þar sem við stöndum frammi fyrir því að sums staðar er bara einn lögreglumaður á vakt við mjög sérstakar aðstæður þar sem hann þarf að sinna stóru landsvæði. Ef eitthvað gerist í öðrum enda þess svæðis þarf hann að fara þangað, þá getur hreinlega skapast neyðarástand annars staðar á svæðinu.

Mikið er talað um að það skipti máli að öryggi og almannavarnir séu hafðar í heiðri. Við vitum að við þær aðstæður sem urðu í óveðrinu á norðvestur- og norðausturhluta landsins núna í haust að þar kom í ljós að það eru ákveðnar brotalamir sem við þurfum svo sannarlega að laga.

Síðan finnst mér gott að tekið sé á nýjum viðfangsefnum sem komið hafa upp í kjölfar þeirra samfélagsbreytinga sem orðið hafa og talað um að mikilvægt sé að lögreglan sé stöðugt að greina verkefnin, sé að hugsa um hvað skipti mestu máli, t.d. landamæravörslu og öryggisvörslu. Nú stöndum við frammi fyrir því að þurfa að hugsa um hvernig við tökum á ofbeldi gegn börnum og konum. Lögreglan þarf sem sagt að vera í stöðugri þróun. Hún þarf að huga að menntun lögreglumanna, bæði símenntun og grunnmenntun, svo og þjálfun og þeim tæknibúnaði sem þarf að vera.

Síðan þurfum við auðvitað að vera með ákveðið skipulag innan lögreglunnar. Það þarf að vera ákveðin sérhæfing fyrir hendi þannig að ekki vinni allir að sömu hlutunum. Það þarf að vera sérhæfing í samræmi við veruleikann en ekki nein gæluverkefni.

Við erum sammála um að vinna þarf að styrkingu lögreglunnar. Ég þakka fyrir þessa vinnu og tel að hér höfum við gott og praktískt plagg sem hægt er að vinna eftir.