141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[14:01]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Eftir að hafa skannað þessa skýrslu sýnist mér á öllu að ágætt starf hafi verið unnið í þessari nefnd. Ég er sammála þeirri forgangsröðun sem sett er fram og farið yfir á bls. 17, að það sem skiptir mestu máli er að tryggja að útkalls- og viðbragðsþjónusta lögreglunnar sé í lagi og eins því sem farið er í á blaðsíðunni á undan, með leyfi forseta:

„Lögreglunni verði gert kleift að tryggja jafnan rétt borgaranna hvar sem er á landinu til sambærilegrar löggæslu og öryggis eftir því sem hægt er.“

Þetta held ég að skipti máli. Sem þingmaður landsbyggðarkjördæmis finnst mér skipta gríðarlega miklu máli að lögreglan sé til staðar á hverjum stað. Þá verðum við að passa okkur á að fækka og sameina ekki of mikið þannig að við tryggjum að lögregluyfirvöld séu alls staðar.

Ég staldraði við kafla sem heitir Lögregla og samfélag. Þar er vitnað til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna þar sem kveður á um að einstaklingar skuli eiga rétt á persónulegu öryggi. Það er alveg rétt. Við skulum heldur ekki gleyma því að þar er líka kveðið á um ýmislegt sem varðar friðhelgi einkalífsins. Ég get ekki séð að í þessari skýrslu sé mikið verið að mæla með forvirkum rannsóknarheimildum eða auknum heimildum til lögreglunnar. Skýrslan virðist mér vera annars eðlis. En ég held að það sé grundvallaratriði.

Hér stendur líka á bls. 6, með leyfi forseta:

„Einn mælikvarði á það hvort ríkisvaldið uppfylli framangreind grundvallaratriði“ — þ.e. að veita borgurunum öryggi — „er sá hvort fólk búi við öryggiskennd. Í því felst meðal annars að lögreglan sé sýnileg borgaranum.“

Það er heilmikið til í þessu en ég vil líka benda á að hún má ekki vera of sýnileg. Ég hef held ég aldrei fundið fyrir minni öyggistilfinningu en til dæmis á Port Authority í New York þar sem er ekki þverfótað fyrir vopnuðu lögregluliði og hermönnum með alvæpni, þá fyrst einhvern veginn finnst manni maður ekki mjög öruggur. Við þurfum að finna þennan gullna meðalveg.

Mig langar líka að taka upp eitt mál sem er mér mjög hugleikið. Ég get ekki séð að það hafi verið rætt í nefndinni, en það er breytt nálgun í fíkniefnavörnum. Hér er til dæmis rætt um að auka eftirlit í Leifsstöð, en það er náttúrlega skiljanlegt af þeim orsökum að miklu fleira fólk fer þar um en áður. Þótt við ætlum ekki að auka eftirlitið þarf að sjálfsögðu meiri mannskap í það.

Ég hef talað fyrir afglæpavæðingu í fíkniefnamálum. Ég lít svo á að fíkniefnavandi sé fyrst og fremst heilbrigðisvandamál og við þurfum að ráðast gegn honum sem slíkum. Þar hefur margt mjög merkilegt verið gert innan lögreglunnar víða um heim. Ég vil nefna sérstaklega Vancouver-borg þar sem lögreglan breytti algjörlega um taktík gagnvart fíkniefnavandanum. Mun vægar hefur verið tekið á fíkniefnaneytendum og upp hefur verið komið neyslurýmum. Sú lögregla sem fæst við þann hóp borgaranna sem á í þessum vanda er allt öðruvísi en hún var áður. Áður voru það kannski nýliðar í lögreglunni sem voru sendir í þessi erfiðustu hverfi og fengu þar sína eldskírn, en nú er lögð áhersla á að þetta séu þroskaðir menn. Þeir hafa gjarnan félagsfræðimenntun og eitthvað slíkt á bak við sig og hafa þennan grunn. Með þessum aðgerðum og fleirum hefur tekist að lækka glæpatíðni í Vancouver umtalsvert. Slíkar aðgerðir eru ekki endilega kostnaðarsamari, en það þarf breytta nálgun. Hér er kafli um menntun lögreglu sem ég tek heilshugar undir, en ég sakna þess að farið sé inn á þessar brautir. Ég held að slík nálgun sé alla vega ekki dýrari. Þetta er eitthvað sem við ættum að skoða virkilega.