141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[14:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað þakka fyrir þessa umræðu og lýsi ánægju minni með þá skýrslu sem nú er komin út. Ég held að mikið ánægjuefni hafi verið að þingmenn náðu saman um að kalla eftir stefnumörkun á þessu sviði. Mér sýnist á skýrslunni að náðst hafi góð sátt í nefndinni um þann tillöguflutning sem þar er að finna. Ég held að það sé ávísun á gott starf og gott framhald í þessum efnum.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að löggæslumál hafa töluvert komið til umræðu á þessu kjörtímabili. Ég og fleiri þingmenn höfum á stundum ekki verið sáttir, sérstaklega ekki við þær fjárveitingar sem varið hefur verið til löggæslumála. Við þingmenn vitum að hæstv. innanríkisráðherra hefur beitt sér fyrir eflingu löggæslunnar eftir því sem honum hefur verið unnt, en hins vegar hefur, eins og fram kom í umræðum hér fyrr í dag, kannski stundum skort á að hann nyti nægilegs stuðnings í þeirri vinnu af hálfu samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn og meiri hlutans hér í þinginu. Úr því hefur vissulega verið bætt með ákveðnum aðgerðum, eins og við afgreiðslu fjárlaga síðasta haust þegar viðbótarfjármagn var ákveðið til að efla löggæsluna, en ég dreg samt enga dul á að ég held að það skref hafi verið stigið of smátt og of seint. En þakka ber það sem er í rétta átt.

Ég held að það skref sem þó var stigið hafi verið ákveðin vísbending um að fleiri og fleiri innan þessara veggja átta sig á því hversu mikilvægt er að bæta úr stöðu mála hjá löggæslunni, tryggja að við getum aftur farið að fjölga starfandi lögreglumönnum, að lögreglan og lögregluembættin fái nægilegt fjármagn til þess að halda uppi þeirri mikilvægu þjónustu sem þeim er ætlað og að sú áætlun sem má finna í þessari skýrslu, bæði um fjölgun lögreglumanna og eflingu einstakra sviða, aukinn tækjabúnað og annað þess háttar. Ég held að við hljótum öll að fagna því að þarna er búið að búa til ákveðinn vegvísi sem hægt verður að fylgja eftir á næsta kjörtímabili. Þegar um er að ræða áætlun sem í sjálfu sér er metnaðarfull að þessu leyti er sérstaklega ánægjulegt að um hana skuli hafa náðst jafnvíðtæk samstaða í nefndinni og raun ber vitni.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna í leiðinni að löggæslan þarf auðvitað nægilegt fjármagn og tryggja þarf nægilegan mannskap, en það þarf á sama tíma líka að huga að lagaheimildum, rannsóknarheimildum og þess háttar. Þar höfum við ekki verið jafnsamstíga eins og í þessum efnum. Auðvitað hefur verið ákveðinn og hugsanlega töluvert mikill skoðanamunur í sambandi við svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir og annað þess háttar. Ég get ekki látið hjá líða að nefna að þar er einnig um að ræða atriði sem við þurfum að huga að ef við viljum að íslenska lögreglan verði í stakk búin til þess að sinna hlutverki sínu á komandi árum.