141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef komið hingað í ræðustólinn og sagt að ég væri nú frekar íhaldssamur á að breyta 79. gr., þ.e. breytingarákvæðisgreininni, og hef í huga mér haft þá vissu að menn hefðu hingað til notað það sem samstöðugrein til að tryggja það að víðtæk sátt væri áður en menn færu í breytingar. Það væri ástæðan fyrir því meðal annars að menn hefðu ekki breytt og þetta væri erfiður þröskuldur.

Ég skal viðurkenna að í þessari umræðu, umræðan skilar alltaf einhverju, hefur mér orðið ljóst að það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er nokkuð auðvelt að breyta, sérstaklega þegar stjórnarflokkar halda áfram samstarfi yfir meira en eitt kjörtímabil. Nú störfuðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur saman í þrjú kjörtímabil og hv. þingmaður var á þingi allan þann tíma.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort það hafi aldrei komið til tals að klára auðlindaákvæðið, til dæmis árið 2003 þegar afrakstur auðlindanefndar var sá að allir stærstu flokkarnir voru orðnir sammála, þar á meðal Samfylkingin, um slíkt ákvæði. Og hvað hafi valdið því að menn á þeim tíma kláruðu ekki hreinlega málið og yfir þær kosningar með einföldum meiri hluta óháð því hvort Samfylkingin stæði við þær yfirlýsingar sem hún hafði gert í auðlindanefndinni. Voru menn að bíða eftir því á þeim tíma að allir flokkar á þinginu sameinuðust um þetta, því að ljóst er að Vinstri grænir hafa ekki verið sammála þeirri útfærslu sem þar náðist sátt um? Það hefði alla vega verið möguleiki. Spurningin er: Af hverju hefur hún ekki verið notuð?