141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér enn þá að ræða breytingartillögu formanna stjórnarflokkanna og óháðs þingmanns, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, þess efnis að gera breytingar á 79. gr. núgildandi stjórnarskrár til að tryggja framhald á endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Eins og ég hef áður sagt erum við framsóknarmenn fylgismenn þess að stjórnarskráin verði endurskoðuð. Þar höfum við lagt mesta áherslu á að setja inn í núgildandi stjórnarskrá auðlindaákvæði. Í því skyni lögðum við fram fyrir um tveimur vikum tillögu til umræðu milli flokkanna sem var meira og minna samhljóða niðurstöðu auðlindanefndar árið 2000, að viðbættu ákvæði sem tryggir að fullveldisyfirráðum Íslands yfir auðlindunum verði aldrei hnekkt, ekki verði hægt að framselja þau til alþjóðlegra stofnana.

Við höfum lagt áherslu á að gengið verði lengra í átt að beinu lýðræði, þ.e. teknar upp þjóðaratkvæðagreiðslur í meiri mæli, og við höfum líka bent á nokkra kafla í stjórnarskránni sem þurfi að endurskoða. Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti meðal annars á að ekkert ákvæði væri um Hæstarétt í dómstólakaflanum. Þá hefur auðvitað forsetakaflinn svokallaði, þ.e. um samskipti og tengsl forsetaembættisins við löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, verið talsvert til umræðu.

Okkur var það ljóst, frú forseti, þegar í byrjun janúar og jafnvel fyrir jól að ekki mundi takast að ljúka þessari heildarendurskoðun með þeim hætti sem stjórnarflokkarnir hafa lagt upp með af ýmsum ástæðum, enda hefur það aldrei verið meginmarkmið okkar framsóknarmanna að skrifa nýja stjórnarskrá þó að það eigi að endurskoða stjórnarskrána, m.a. þá þætti sem ég nefndi hér. Við sáum að málið væri komið í óefni og buðum til viðræðna strax í janúar um ákveðna þætti eða kafla stjórnarskrárinnar. Á það var ekkert hlustað. Þegar við vorum að nálgast lok þings og það var aðeins ein vika eða tíu dagar til áætlaðra starfsloka þingsins sendi þingflokkurinn frá sér málamiðlunartillögu, niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000, að viðbættu ákvæði um fullveldisyfirráð til að tryggja að auðlindum í eigu íslenskrar þjóðar væri ekki hægt að afsala með nokkrum hætti til yfirþjóðlegra stofnana.

Það verður að segjast eins og er að á þessar tillögur okkar hefur ekki verið mikið hlustað, ekki hefur verið mikið um formlegar viðræður. Hv. þm. Pétur H. Blöndal staðfesti það áðan að þrátt fyrir að hann sé kannski sá þingmaður í þingsal sem hefur sýnt stjórnarskránni á liðnum árum hvað mestan áhuga og lagt fram fjöldann allan af tillögum hafa tillögur hans heldur ekki verið teknar til formlegra viðræðna milli flokkanna. Það hefur einmitt gerst það sem ekki var áður uppi á borði þegar menn fjölluðu um stjórnarskrána. Það hefur komið fram og kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams fyrir nokkrum dögum, að á því tímabili sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru saman í stjórn hefði þeim flokkum verið í lófa lagið, þar sem þeir störfuðu saman í þrjú kjörtímabil, að breyta stjórnarskránni með einföldum meiri hluta í þingi og yfir kosningar í það minnsta tvisvar og jafnvel þrisvar. En það var ekki gert, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal staðfesti áðan, vegna þess að menn lögðu gríðarlega mikið upp úr því að um þær breytingar væri almenn sátt í þinginu milli allra stjórnmálaflokka.

Aftur á móti hefur vinna núverandi stjórnarflokka byggst á því og miðast að því að þeir væru að breyta stjórnarskránni og enga aðra þyrfti til. Menn hafa farið út í ýmsar æfingar og túlkað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október, sem sumir hafa kallað skoðanakönnun, á ævintýralegan hátt. Margir hafa gengið í þá gildru að túlka 74% stuðning þjóðarinnar við það að setja ákvæði um náttúruauðlindir í eigu þjóðar í stjórnarskrá þannig að sama hlutfall hefði samþykkt óbreytta tillögu sem kom frá stjórnlagaráði og meiri hluti samþykkti að ætti að hafa til grundvallar, sem er náttúrlega stór munur á. Ég hef útskýrt það í nokkru máli hvernig margir sem komið hafa að máli við mig, bæði þeir sem sögðu já við þeirri spurningu og einnig sem sögðu nei, túlkuðu orðalagið „til grundvallar“.

Síðan hefur það gerst í þessu máli að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt einar fjórar tillögur á borð þingsins eða til umfjöllunar í nefndinni um auðlindaákvæði. Að lokum gerðist það um daginn, síðasta sunnudag, að formaður Samfylkingarinnar lagði til eitt ákvæði og morguninn eftir kom síðan önnur tillaga, sem er breytingartillaga við 79. gr. frá þingflokksformönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna auk tveggja annarra þingmanna, sem var á engan hátt í samræmi við tillögu formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páls Árnasonar.

Það verður að segjast eins og er að það vekur verulega furðu samskiptaleysið sem virðist vera á milli þingflokksformannsins og formannsins, án þess að ég ætli að skipta mér af innanhússmálum í Samfylkingunni. En þetta gerir að verkum, frú forseti, að trúverðugleiki þess að menn séu í raun að reyna að ná breiðri sátt milli ólíkra stjórnmálaflokka er enginn. Það virðist ekki einu sinni vera hægt að ná sátt innan einstakra stjórnarflokka um hvaða leið eigi að fara.

Mér varð það á í umræðu fyrir nokkrum dögum að lýsa stefnu einstakra flokka þannig að þar væru sósíalistar. Það hvarflaði ekki að mér á þeirri stundu að þeir sem aðhylltust slíkar stjórnmálaskoðanir litu á það sem skammaryrði og ég geri það ekki. Þetta er einfaldlega lýsing á ákveðinni pólitískri skoðun. Ég var annars vegar að fjalla um þetta nýja ákvæði sem þingflokksformennirnir lögðu fram og hins vegar þær breytingar á vatnalögunum sem þá stóðu yfir í atvinnuveganefnd. Þau vinnubrögð eru nú efni í langa ræðu og ég mun bíða með það. En í stuttu máli kom málið inn undir fölsku yfirskini, það átti að vera samræmingar- og tæknilegs eðlis, var keyrt í gegn á stuttum tíma, sent út til umsagnar í fimm daga, þar af yfir helgi, þannig að engir sérfræðingar, óháðir lögfræðingar treystu sér til að skila inn umsögn á þeim tíma.

En þar var alls ekki um að ræða neina samræmingu. Þar var verið að gjörbreyta núverandi réttindastöðu þeirra sem búa á landi, eiga land, og hafa aðgang að grunnvatni, hvort sem er heitu eða köldu. Það var í því ljósi sem ég minntist á þessa pólitísku stefnu Vinstri grænna, sem ég hélt að þeir skömmuðust sín nú ekki fyrir, og furðaði mig á að Samfylkingin, sem er jafnaðarmannaflokkur, sósíaldemókrataflokkur, væri komin á sömu línu og Vinstri grænir.

Ég get ekki fallist á þær söguskýringar, eftirásöguskýringar hv. þm. Helga Hjörvar að 13 ára umræður og umfjöllun um auðlindaákvæðið frá því að niðurstöður auðlindanefndar, þar sem þrír þingmenn Samfylkingarinnar samþykktu það ákvæði sem þar var, hafi skilað nægilega miklu til að það ákvæði sem þingflokksformenn Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram núna sé nægilega rætt og því megi samþykkja þá tillögu. Ég sé ekkert samhengi í því vegna þess að í þeirri tillögu sýnist mér vera, án þess auðvitað að það hafi fengist nægilega rætt af sérfræðingum, tilvitnun í það sama fyrirkomulag sem menn eru að gera breytingu á í vatnalögunum. Menn eru að gjörbreyta réttindum landsmanna sem verið hafa við lýði í 1100 ár og eru vel að merkja þau sömu og á Norðurlöndunum og í Kanada, í löndum sem við berum okkur saman við. Mér finnst það alls ekki rökrétt niðurstaða, frú forseti, að þetta sé allt í einu orðin hin ásættanlega niðurstaða og allir þingflokkar sem sæti eiga á þingi eigi að samþykkja hana. Ég sé alls ekki neitt rökrétt í því. Ég verð að segja eins og er að ég furða mig á því að menn komi hér upp í ræðustól dag eftir dag og haldi slíku fram án þess að hafa gert minnstu tilraun til að setjast formlega niður og reyna að ná sáttum um þessi ákvæði.

Ég held, frú forseti, að sá tími sé liðinn og að menn ættu að einbeita sér að því hvort hægt sé að ná sáttum um breytingu á 79. gr., sem ég hef þó ítrekað sagt að ég sé efins um að skynsamlegt sé að gera. En eins og kom fram í andsvörum við hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur mér þó orðið ljóst að leið okkar að breyta stjórnarskránni, sem hefur verið talin þung og erfið, er auðveldari en víða annars staðar og stjórnarskrá okkar er sú sem er auðveldast af öllum stjórnarskrám Norðurlandanna að breyta. Það getur því vel verið að það sé skynsamlegt að setjast yfir það ákvæði. Mér finnst áhugavert að koma því inn að þjóðin greiði atkvæði að lokum um slíka breytingu til þess að hún fái staðfestu. En ég verð að segja eins og er að þeir dagar sem hér hafa liðið frá því að þingi átti að ljúka hafa liðið án þess að menn hafi boðað til formlegra funda til að setjast yfir það og fjalla um það með skýrum hætti. Ég veit ekki hvort maður á að halda að hér sé um einhvers konar leikrit að ræða en ég vona ekki.

Varðandi það auðlindaákvæði sem við framsóknarmenn lögðum fram, til umræðu vel að merkja, byggði það á niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000, auk þess sem við settum inn eina setningu þess efnis að óheimilt væri að framselja ríkisvald vegna slíkra auðlinda til alþjóðlegra stofnana. Þessi tillaga hefur ekki fengist rædd. Eina sem hér hefur gerst er að þó nokkrir þingmenn úr Vinstri grænum og einstaka þingmenn úr Samfylkingunni hafa hreinlega hálftryllst yfir því að þarna standi inni setning sem fjallar um óbein eignarréttindi. Er þá verið að fjalla um leiguréttindi og nýtingarsamninga og annað í þeim dúr, að slík heimild njóti verndar sem óbein eignarréttindi.

Frá hendi okkar framsóknarmanna er það að sjálfsögðu til umræðu og algjörlega opið hvort sú setning á að fara út. Hún var hins vegar sett inn af auðlindanefndinni til að undirstrika að slík réttindi nytu aldrei verndar sem bein eignarréttindi, aldrei. Um hvað eru menn þá að fjalla? Jú, þetta er meinlegur misskilningur um óbein eignarréttindi sem hér hefur valdið titringi meðal þeirra sem aðhyllast aðrar stjórnmálaskoðanir en jafnaðarmennsku að ég hélt, eða miðjumennsku eða hvað það er nú annað sem menn aðhyllast.

Í ágætri grein eftir Þorstein Magnússon, lögfræðing og frambjóðanda Framsóknarflokksins í Reykjavík, sem hann birti í síðustu viku, útskýrir hann í mjög góðu og einföldu máli um hvað þetta fjallar. Sú setning sem menn hnutu um, að slík heimild nyti verndar sem óbein eignarréttindi — sá skilningur að þar með væri verið að gefa henni eitthvert aukið vægi er einfaldlega ekki réttur. Eða eins og Þorsteinn Magnússon segir, með leyfi forseta:

„Þvert á móti væri þjóðareign á auðlindum fest í sessi með umræddu ákvæði þó svo að hinn takmarkaði nýtingarréttur nyti einnig verndar.“

Hann ræðir síðan hvort þessi setning sé nauðsynleg og kemst að því að hún sé það ekki, tekið sé á þessu í núgildandi stjórnarskrá. Hann fjallar síðan um það hvernig líkja megi óbeinum eignarréttindum saman við leiguréttindi. Ég ætla aðeins að fara ofan í það á nokkrum mínútum, frú forseti:

„Eignarréttindi eru tvenns konar í lagalegum skilningi, þ.e. annars vegar bein eignarréttindi og hins vegar óbein. Óbein eignarréttindi kallast það þegar einhver nýtur tiltekinna afmarkaðra réttinda yfir eign annars manns. Dæmi um slíkt eru afnotaréttindi. Sá sem leigir íbúð nýtur til dæmis samningsbundinna afnotaréttinda yfir íbúðinni. Þau réttindi teljast óbein eignarréttindi og njóta verndar sem slík. Enginn vafi er þó á því að það er leigusalinn en ekki leigjandinn sem er eigandi eignarinnar. Leigusalinn er þannig handhafi hins beina eignarréttar á íbúðinni en leigjandinn nýtur þar óbeinna eignarréttinda. Annað dæmi um afnotaréttindi er réttur þess sem samkvæmt samningi eða sérstöku leyfi frá eiganda auðlindar fær að nýta auðlindina í tiltekinn tíma gegn gjaldi. Það er einmitt slíkt fyrirkomulag sem umrædd tillaga gengur út á.“

Þetta snertir meðal annars nýtingarsamninga vegna fiskveiðistjórnar, vegna orkumála, vegna olíuvinnslu, vegna ýmissa annarra þátta þar sem ríkið fyrir hönd þjóðarinnar leyfir nýtingu á auðlind sem þjóðin á en aðrir fá nýtingarrétt tímabundið, nýtingarrétt gegn gjaldi fyrir.

Þannig er þetta, frú forseti. Og það væri ágætt að þeir sem hæst blása mundu kynna sér þessa grein og aðrar sem tengjast málinu áður en þeir byrja að gagnrýna. Ég hef fulla trú á því að menn vitkist þá og átti sig á um hvað málið fjallar og verði tilbúnir að setjast niður með okkur öllum í þinginu og ræða þetta. En ég efast um að við höfum nægjanlegan tíma til þess, menn hafa eytt honum í tóm upphlaup og vitleysu.

Við leggjum hins vegar ríka áherslu á setninguna sem við bættum inn í niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000, þess efnis að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna slíkra auðlinda til alþjóðlegra stofnana. Þessi niðurstaða auðlindanefndar frá árinu 2000 var niðurstaða sem sérfræðingar á þessu sviði höfðu legið yfir í langan tíma og orðalagið haft nákvæmt þannig að það væri algjörlega skýrt hvað stæði þarna og hvað ekki. En menn hafa síðan verið að leika sér að því í umræðunni um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar að hræra í ákvæðum eftir eigin geðþótta, liggur mér við að segja, án þess að átta sig á því að hvert og eitt orð getur haft gríðarlegt mikilvægi.

Þannig er til að mynda í breytingartillögu hv. þingflokksformanna stjórnarflokkanna fjallað heilmikið um réttindi yfir vatni, jarðhita og öðrum hlutum. Maður verður að spyrja hvort með þessu eigi til að mynda að koma í veg fyrir að garðyrkjubóndi á jörð geti borað eftir heitu vatni vegna þess að hann eigi ekki vatnið, sem hann hefur þó haft þá tilfinningu fyrir í gegnum aldirnar að hann hafi. Í þessari tillögu er líka talað um tiltekna dýpt frá yfirborði jarðar. Um þetta hefur verið fjallað í áratugi. Ólafur Jóhannesson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins og einn okkar helsti sérfræðingur í lögum í gegnum tíðina, fjallaði heilmikið um þetta og reyndi að setja fram lög þar sem þetta væri skilgreint.

En tækninni fleygir einfaldlega fram. Þar sem menn gátu einu sinni borað 10 eða 20 metra ofan í jörðina eftir köldu vatni eða heitu vatni gátu menn síðan nokkrum árum síðar borað 100 eða 200 metra. Nú eru orkufyrirtækin farin að stefna að djúpborunum sem ekki eru aðeins 1,5 eða 2 kílómetrar heldur 3 kílómetrar. Og það er ekkert útilokað að einstakur jarðeigandi geti borað slíka holu. Er það þá ekki eðlileg nýting? Ef viðkomandi er að leita að heitu vatni til þess að knýja fjölskyldugróðrarstöðina sína, er það ekki venjuleg nýting? Á það allt í einu að vera skilgreint af einhverjum þingmönnum hvað sé „tiltekin dýpt“?

Ástæðan fyrir því að menn hurfu frá þessari leið var að þeir sáu að illmögulegt væri að skilgreina þetta nægilega vel, sem þeir höfðu þó reynt í þó nokkuð langan tíma. En hér dúkkar þetta upp í tillögum þingflokksformannanna eins og ekkert sé, án þess að því fylgi greinargerð sérfræðinga sem hafa þó fjallað um málið í mjög langan tíma, frú forseti.

Svona er ekki hægt að hafa vinnubrögð við endurskoðun á stjórnarskránni. Þess vegna eigum við, ef hægt er, að einbeita okkur að því að tryggja að við getum haldið málinu áfram því að tíminn er auðvitað löngu runninn út. Ég sé, frú forseti, að tími minn í þessari ræðu er því miður að renna út og átti ég þó eftir að fara yfir umhverfi vatnalaga í Danmörku þar sem til að mynda 2/3 af vatnsveitum eru í einkaeigu, litlum og meðalstórum vatnsveitum, og vatnið sem þeir nýta er það líka, en það er hægt að setja eignarréttinum takmarkanir og hægt er að setja hinum óbeina eignarrétti mun meiri takmarkanir. Það er hægt að setja alls konar reglur sem danska ríkið hefur sett til að tryggja almannagæði og almenningsrétt. Og þá leið hljótum við að vilja (Forseti hringir.) fara líka, því að við viljum búa í vestrænu hagkerfi með vestræn lög sem sanna og sýna fyrir okkur að blandað hagkerfi er það sem hefur skilað þessum þjóðum mestum ávinningi á liðnum öldum.