141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður hefur umræðan um náttúruauðlindaákvæðið snúist allt of mikið um sjávarauðlindina, um kvótann, en ekki um auðlindir almennt, sem slíkt ákvæði hlýtur að taka tillit til. Ég hef sömu áhyggjur og hv. þingmaður af því að sú breytingartillaga við 79. gr., við breytingarákvæðið, þar sem fella á inn nýtt ákvæði um auðlindir í þjóðareigu frá þingflokksformönnum Vinstri grænna og Samfylkingar sé vanhugsuð, það sé ekki nægilega útpælt, að í því geti verið pyttir sem menn lenda í. Í þeim pyttum mundu menn ekki lenda ef þeir tækju upp niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000, ef ég má lesa hana, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.“

Hér er aftur á móti möguleiki á því — eins og við framsóknarmenn viljum gjarnan gera og kemur fram í stefnu okkar, til að mynda í stjórn fiskveiða — að tryggja með einhverjum hætti að hægt sé að taka á þeim vanda sem kvótakerfið hefur skapað í byggðalegu tilliti. Við erum mjög efins um að þær aðferðir sem notaðar eru í dag séu nægilega góðar en þetta auðlindaákvæði mundi ekki banna slíkt, enda er þetta útpælt, úthugsað, legið hefur verið yfir því í langan tíma af bæði þingmönnum og þar til bærum sérfræðingum. En það er ekki hægt að segja um tillöguna sem dettur hér liggur við af himni ofan á mánudagsmorgni sem er önnur en formaður Samfylkingarinnar leggur fram á sunnudegi.