141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið litið svo á í eignarréttinum að hann takmarkist af því hvernig er hægt að nýta land. Það hefur þróast þannig í gegnum tíðina að með aukinni tækni, auknu hugviti og framtaki einstaklinganna hefur eignarrétturinn auðvitað breyst. Ég tel að tillagan sé óskýr og tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar í dag að hana þyrfti að skoða betur, sérstaklega í ljósi frammíkalla hv. þm. Marðar Árnasonar sem kallaði fram í, þegar hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kallaði eftir því að eignarrétturinn yrði skilgreindur og sérstaklega hvað varðar vatnið, og spurði hver skilgreiningin væri á mjólk og líkti því tvennu saman, eignarréttinum gagnvart vatnsréttindum annars vegar og hins vegar á framleiðsluvöru sem við þekkjum úr landbúnaði og er tiltölulega einfalt að skilgreina. Ég tel að í því litla en áhrifaríka frammíkalli birtist okkur sú staðreynd að hv. þingmaður ber ekki meiri virðingu fyrir eða hefur ekki skilning á því hvað eignarréttur á auðlindum er.