141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að í grunninn sé það svo að breytingartillaga sem er komin fram frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og fleirum vekur einfaldlega fleiri spurningar en hún svarar og þannig á ákvæði í stjórnarskrá ekki að vera. Stjórnarskrá á að vera stutt, skýr og hnitmiðuð. Sú tillaga sem liggur frammi er ekkert af því. Auk þess ber hún þann annmarka, sem breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur gerir auðvitað í heild sinni, að engin greinargerð liggur að baki þannig að ómögulegt er fyrir þá sem ætla að reyna að glöggva sig á því hvernig eignarréttur er varinn, verði tillagan samþykkt, að reyna að átta sig á því hvað ákvæðið þýðir. Það er þá ekki nema lesa allar þær ræður sem hafa verið fluttar til að átta sig á því hvað menn voru að hugsa, en miðað við umræðuna sem ég hlustaði á er enginn sammála um hvað ákvæðið þýðir. Í ljósi þess að menn líta á vatnsréttindi, jarðhitaréttindi og fleira sem svipaðan hlut og mjólk held ég að mjög erfitt verði að botna þá umræðu.