141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Fyrst vil ég segja að mér finnst svolítið undarlegt að enginn af flutningsmönnum frumvarpsins er í húsinu og hefur ekki verið við umræðuna hér í dag. Mér finnst það mjög undarlegt og tel eðlilegt að einhver af þessum þremur aðilum sitji hér og skrái hjá sér athugasemdir og taki þátt í umræðunni. Ég mun gera athugasemd við það þegar að minni ræðu kemur hér á eftir.

Hv. þingmaður talar um breytingartillögu fjögurra þingmanna. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hv. þingmann hvort hann telji yfirleitt að þessi breytingartillaga passi og hafi átt að koma hingað sem breytingartillaga við það frumvarp sem við ræðum. Frumvarpið gengur út á að bæta við nýju ákvæði er varðar breytingar á stjórnarskrá, en breytingartillagan fjallar um nýtt auðlindaákvæði. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á þessu og hvort það sé ekki frekar langsótt að breytingartillaga sem er úr allt annarri átt geti átt heima við frumvarpið sem er á dagskránni.

Síðan ræddi þingmaðurinn töluvert um ástæður þess að breytingartillagan er komin fram. Ég verð að taka undir það með hv. þingmanni að svolítið sérstakt var að sjá þessar breytingartillögur koma fram á mánudagsmorgni frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna ásamt tveimur öðrum þingmönnum þegar formaður Samfylkingar hafði um helgina sent formönnum stjórnarandstöðuflokkanna umræðugrundvöll að auðlindaákvæði sem átti að reyna að athuga hvort einhver sátt væri um (Forseti hringir.) að færi hér í gegn eða yrði rætt. Þess vegna er mjög undarlegt hvernig málið allt ber hér að.