141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að flestum megi vera ljóst að þær tillögur og tilraunir sem verið er að gera hér með því að leggja fram breytingar á breytingarákvæði, eða einhver viðbótarákvæði eða hvað menn kalla þetta, séu að sjálfsögðu til þess fallnar að reyna að halda áfram þeirri vinnu sem fór af stað og er búin að eiga sér stað þetta kjörtímabil. Maður veltir þó fyrir sér ákveðnum hlutum í orðalaginu og þeim þröskuldum sem er verið að setja.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á það í dag í ræðu sinni að útlit væri fyrir að ekki þyrfti nema rúmlega 20 þingmenn til þess að samþykkja breytingu á stjórnarskrá í þinginu miðað við þá þröskulda sem hér eru settir inn. Þá velti ég fyrir mér hvort eðlilegt sé að vera með svo lága þröskulda eða gera svo litlar kröfur til þess að samstaða eða sátt náist um breytingar.

Við hljótum að spyrja og því spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé búið að láta á það reyna núna á þessu kjörtímabili að ekki sé gott og ekki sé unnt að breyta stjórnarskrá í svo miklu ósætti og svo miklum deilum sem verið hafa um ferlið, um málið, um einstakar greinar, um breytingartillögur og allt þetta. Hvort ekki sé farsælla að ýta vinnunni yfir á næsta kjörtímabil í von um að menn vinni þetta eins og fólk, að einhvers konar sátt sé þá í það minnsta um ferlið og síðan muni menn taka umræðu um það sem kemur út úr því. Það á að klára ákvæði núna á einhverjum ofsahraða líkt og til dæmis auðlindaákvæðið sem hér er til umfjöllunar. Það kallar einfaldlega á margra daga vinnu að mínu viti. Mér finnst það og spyr þingmanninn hvort hann sé sammála um að það sé nokkuð bratt. Í tillögunni sem hér er lögð fram er til dæmis talað um tiltekna dýpt frá yfirborði jarðar. Það er ekki reynt að rökstyðja eða útskýra hvað þingmennirnir eiga við þegar þeir orða tillögur sínar með þeim hætti.