141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:07]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gleymir einu atriði í þeirri atburðarás sem hann hefur verið að lýsa hér því að eftir að tillaga formanna stjórnarflokkanna kom fram var henni hafnað og í þeirri stöðu kemur tillaga hv. þingmanna Oddnýjar G. Harðardóttur og fleiri inn í málið. Þar að auki er undarlegt að amast við því að þingmenn geti flutt tillögur og lagt sitt til mála í jafnstóru máli og stjórnarskrármálið er þar sem öllum má ljóst vera að mikill þungi er í stjórnarflokkunum báðum á að tryggja nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Það er kannski helgidómurinn sem hvað mest áhersla liggur á.

Hv. þingmaður talar mikið um málsmeðferð og pólitíska taktík og að þessu hafi öllu verið siglt í strand með því að nokkrir þingmenn flytja hér tillögu um auðlindaákvæði og endurspegla þar með vilja stórs hluta þingsins. Ég vil þá spyrja hv. þingmann, af því að hann talaði um að það þyrfti að sigla þessu máli í höfn: Hvaða höfn er það? Hvernig lítur hún út? Hvaða málalok vill hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sjá á þessu máli?