141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:11]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að átta sig á samhenginu í máli hv. þingmanns þegar hann talar um og kallar eftir því að menn setjist niður og skrifi auðlindaákvæði. Þau skrif hafa staðið yfir allt þetta kjörtímabil. Sú vinna er búin að standa í fjögur ár, hún er reyndar búin að standa í 13 ár frá því að fyrstu tillögur að nýju auðlindaákvæði komu frá auðlindanefndinni árið 2000.

Við erum ekki að fara að taka hér heildarendurskoðun á stjórnarskránni á örfáum dögum eins og þingmaðurinn lætur að liggja. Sú vinna er búin að standa allt þetta kjörtímabil í öllum nefndum þingsins og í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Svo er náttúrlega af og frá að halda því fram að hér sé verið að smygla einhverjum atriðum inn í málið á lokaspretti. Málið liggur allt undir til umræðu, að sjálfsögðu. Við erum að ræða stjórnarskrána. Það er ekki verið að smygla neinu inn.

Þegar þingmaðurinn talar um að hér sé verið að skemma málið — bíddu, í hverju er skemmdin fólgin? Hv. þingmaður vill ekki nýja stjórnarskrá, vill ekki nýtt auðlindaákvæði, það er bara kjarni málsins. Og þegar þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem láta sér annt um nýja stjórnarskrá og mikilvægustu ákvæðin í þeim tillögum sem liggja fyrir, m.a. auðlindaákvæðið, þá amast hv. þingmaður við því og talar um að það sé eyðilegging á málinu. Það er náttúrlega ekki hægt að ná nokkrum botni í þennan málflutning.

Þingmaðurinn hefur ekki svarað mér enn þá: Í hvaða höfn vildi hann sigla málinu? Vill hann nýja stjórnarskrá eða vill hann hana ekki? Vill hann nýtt auðlindaákvæði eða vill hann það ekki? Einfaldar spurningar.