141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð athyglisvert að hv. þingmaður skyldi segja: Stjórnarskráin er hér öll undir. Ég hlustaði á hv. þingmann í dag undir liðnum fundarstjórn forseta þar sem hún taldi því ekkert til fyrirstöðu að taka hér fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og afgreiða og beita 71. gr. þingskapalaga. Erum við virkilega á þeim stað, hv. þingmaður? (ÓÞ: Fyrir löngu.) Fyrir löngu, það er mjög athyglisverð yfirlýsing hjá hv. þingmanni og gengur þvert gegn því sem formaður hennar eigin flokks hefur sagt. Hann sagði að það væri algjörlega óraunhæft að gera þetta með þessum hætti. Þess vegna leggur hann fram þetta frumvarp. Og hann hefur líka sagt hér í þessum stól, og það væri hollt fyrir hv. þingmann að hlusta betur á það, að efnisleg rök væru til að ræða enn frekar marga þá þætti sem eru í stjórnarskránni og í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. En hv. þingmaður segir hér: Það er bara ekkert því til fyrirstöðu að beita 71. gr. þingskapalaganna og afgreiða eitt stykki stjórnarskrá. Hv. þingmaður mun væntanlega styðja tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur því að hún gengur út á það. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að það er alveg hreint með ólíkindum að við skulum vera að ræða þetta og að sumir hv. þingmenn skuli vera á þeim stað að finnast ekkert mál að afgreiða eitt stykki stjórnarskrá. Ég er algjörlega ósammála því og hef verið lengi.

Hv. þingmaður segir: Hv. þingmaður sem hér stendur vill ekki nýtt auðlindaákvæði. Ég vil bara minna hv. þingmann á eitt: Forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa sagt það allt heila kjörtímabilið að taka eigi smærri efnisleg atriði úr stjórnarskránni og reyna að ganga frá þeim, atriði sem menn eru frekar sáttir um að þurfi að breyta. Það hefur aldrei verið hlustað á það, aldrei nokkurn tíma, bara heildarendurskoðun á stjórnarskránni, allan tímann og allt þar til að hv. þm. Árni Páll Árnason, sem er 1. flutningsmaður að þessu frumvarpi frá forustumönnum stjórnarflokkanna, lagði þetta mál inn. Það hefur aldrei verið flötur á að ræða neitt annað en heildarendurskipulagningu á stjórnarskránni fyrr en þetta frumvarp kom frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni.