141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

röð mála á dagskrá.

[13:38]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er sem sagt Sjálfstæðisflokkurinn sem er ekki tilbúinn til að leyfa þingmönnum að ræða þetta og greiða atkvæði um það hvort opna á betur á þá heimild sem ekki hefur verið nýtt vegna þess að hún hefur verið óframkvæmanleg frá 2011 þegar Alþingi samþykkti að veita hana. Hún hefur aldrei verið notuð vegna þess að breyting sem hér kom fram frá fulltrúum í Sjálfstæðisflokknum við síðustu umræðu málsins var samþykkt.

Þessi tillaga mín er um það að ganga skrefið til baka, færa málið í þann búning sem það kom í inn í þingið frá ráðuneyti upphaflega í þeim tilgangi sem það var flutt, að Landspítalinn geti farið í hagkvæmari innkaup með systurstofnunum sínum í nágrannalöndum.

Þetta er enginn laumufarþegi. Þetta mál var rætt í nefndinni og ekki náðist sátt um það í nefndinni að flytja þessa breytingartillögu. Þess vegna flyt ég hana sjálf, þetta er alþekkt mál og ætti ekki að koma neinum á óvart og heldur ekki það að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki vera með í þessari vegferð.