141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[13:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Atvinnuveganefnd tók málið inn milli 2. og 3. umr. til að fara betur yfir ákveðin sjónarmið sem svínabændur höfðu lagt ríka áherslu á að fá að koma nánar á framfæri við nefndina. Við því var orðið og var haldinn einn áheyrnarfundur með svínabændum. Þeir voru áhyggjufullir yfir þeim breytingum á frumvarpinu að setja ekki í lög sérstaka heimild til að gelda mætti ódeyfða grísi yngri en vikugamla og að fallið hafði út ákvæði varðandi halaklippingar grísa. Aðallega var þeim þó umhugað um geldingarmálið.

Atvinnuveganefnd hefur gert þá breytingu á upphaflega frumvarpinu að taka þaðan út undanþágu vegna geldingar grísa yngri en vikugamalla án deyfingar. Meiri hluti atvinnuveganefndar leggst með öðrum orðum gegn því að slík undanþága sé sett í lög enda er hún ekki í lögum nú þegar.

Nefndin ræddi á fundi sínum hvernig mögulegt væri að koma til móts við áhyggjur og athugasemdir svínabænda, m.a. hvort ekki mætti létta þeim breytinguna með því að koma málum þannig fyrir með lögum að bændum yrði sjálfum heimilað að deyfa grísi fyrir geldingu og framkvæma þá geldinguna svo fremi sem þeir hafi hlotið nauðsynlega þjálfun. Vandkvæðin á því eru þau að til að þetta mætti verða þyrfti að breyta lyfjalögum því að samkvæmt lyfjalögum eru það einungis dýralæknar sem mega meðhöndla deyfilyf.

Meiri hluti atvinnuveganefndar sér því ekkert til fyrirstöðu að slíkar hugmyndir verði kannaðar nánar, þ.e. að farið verði út í slíka breytingu á lyfjalögum og að mögulegar breytingar verði lagðar til við síðari tilefni í þá átt ef vilji reynist til þess. Nefndin gerir hins vegar ekki breytingartillögu þar um í tillögum sínum en þetta er engu að síður umræða sem ekkert stendur í vegi fyrir að verði tekin síðar og okkur finnst alveg athugandi. Aðalatriðið í okkar huga er að ekki sé verið að gelda ódeyfðar skepnur, hvort sem þær eru vikugamlar, eldri eða yngri.

Síðan var rætt um gildruveiði á mink. Nefndin lagði til að þrátt fyrir bannákvæði um drekkingar dýra yrði heimilt að viðhafa gildruveiði á mink þegar hún væri liður í skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum og hefði hlotið samþykki heilbrigðisnefndar sveitarstjórnar á viðkomandi svæði. Við höfðum auk þess lagt til að samþykki heilbrigðisnefndar lægi til grundvallar og það væri grundvallað á almennum leiðbeiningum sem Umhverfisstofnun gæfi út.

Skömmu eftir að nefndin afgreiddi málið þannig frá sér komu ábendingar frá Umhverfisstofnun þar sem stofnunin lét í ljós þá skoðun að ákvæði um stjórn aðgerða til að halda niðri minkastofninum ætti í reynd heima í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en ekki í lögum um velferð dýra. Stofnunin benti á að hægt væri að ná markmiðum um yfirsýn yfir gildruveiðar með því að kveða á um tilkynningarskyldu um veiðarnar til sveitarfélaga. Nefndin kannaði það og leiddi sú könnun í ljós að í því fælist ákveðin einföldun að kveða á um að tilkynna bæri gildruveiði minka beint til Umhverfisstofnunar í stað sveitarfélaga því að Umhverfisstofnun fer með yfirumsjón með þessum veiðum samkvæmt ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þess vegna leggur meiri hluti nefndarinnar til þá breytingu á 21. gr. frumvarpsins að óheimilt verði að aflífa dýr með því að drekkja þeim nema um sé að ræða gildruveiði minka sem hluta af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum sem heimil er samkvæmt ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og slík veiði sé aðeins heimil að hún hafi verið tilkynnt Umhverfisstofnun áður en gildrur verði lagðar. Með skipulegum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum vísar meiri hlutinn til þess að tilgangur gildrulagningar þurfi að vera annar en frístundaveiði. Fyrir utan það leggur meiri hlutinn til fimm tæknilegar breytingar sem grein er gerð fyrir með nefndarálitinu.

Það hefur síðan gerst í millitíðinni eftir að fyrsta nefndarálitið var lagt fram að komið hefur fram breytingartillaga frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni og hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þar sem lagt er til að aftur sé tekið inn í frumvarpið það sem meiri hluti atvinnuveganefndar og nefndin í heild sinni í fyrsta nefndaráliti með fyrstu breytingartillögum lagði til að færi út. Þingmennirnir munu væntanlega gera betur grein fyrir því sjálfir en þeir vilja að sett verði aftur inn í frumvarpið að geldingar grísa yngri en vikugamalla verði leyfðar án deyfingar og vilja að það sé heimilt án deyfingar af bændum sjálfum en ekki dýralæknum. Ég vil bara segja að það er í andstöðu við tillögu meiri hluta nefndarinnar og í andstöðu við það álit sem nefndin stóð samhuga að í upphafi og ég leggst alfarið gegn þeirri breytingartillögu og mun gera nánari grein fyrir því, komi hún til frekari umræðu.

Verði breytingar meiri hluta nefndarinnar samþykktar tel ég að málið sé til mikilla bóta og framfara í dýravelferð almennt. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við höfum heildstæða, góða og vandaða löggjöf um dýravelferð. Dýravelferðarmál eru mælikvarði á siðferði samfélags og með henni mótum við þá umgjörð sem máli skiptir um aðbúnað dýra sem eru undir manna höndum og líka umgengni okkar við þau dýr sem við þurfum með einum eða öðrum hætti að hafa afskipti af eða áhrif á með okkar eigin athöfnum. Ég tel að þessi rammi sé orðinn fyllilega ásættanlegur, náist fram þær breytingar sem meiri hluti atvinnuveganefndar gerir á frumvarpinu.