141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[14:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum núna, frumvarp til laga um velferð dýra, á sér alllanga sögu eins og okkur er ljóst. Að mínu mati hefur verið í meginatriðum staðið vel að undirbúningi málsins. Eins og við sjáum er í stórum dráttum býsna mikil samstaða um málið þó að við vitum öll að hér er um að ræða margbrotið mál, flókið mál, ýmis álitaefni sem upp hafa komið m.a. í störfum nefndarinnar sem okkur voru örugglega ekki öllum ljós áður en við hófum hina efnislegu meðferð.

Auðvitað koma upp mjög mörg álitamál. Ég hygg að það sé enginn ágreiningur um að við viljum standa þannig að málum sem snúa að dýravelferðinni að við reynum með öllum tiltækum ráðum að tryggja að vel sé farið með dýr, hvort sem það eru húsdýr eða villt dýr. Um það er í sjálfu sér enginn ágreiningur. Það er ekki það sem menn hefur greint á um.

Það er frekar spurningin um með hvaða hætti við nálgumst málið, um aðferðafræðina sem við beitum og þar fram eftir götunum. Þess vegna sáum við þegar við fórum að lesa frumvarpið sem liggur hér til grundvallar að ýmis álitamál höfðu þar komið upp. Sum hver tókst mönnum að leysa með þeim hætti að þeir urðu algerlega sammála. Í öðrum tilvikum reyndu menn að ná saman, gefa eftir af sjónarmiðum sínum til að ná öðrum fram á sama sviði og niðurstaðan varð það frumvarp sem hér liggur fyrir. Frumvarpið hafði farið í gegnum býsna mikið samráðsferli. Gerð er ítarleg grein fyrir því í athugasemdum við frumvarpið og aðilar að þeirri vinnu voru fulltrúar ráðuneyta, Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, dýralækna, dýraverndarráðs og umhverfisráðuneytisins. Við getum því örugglega ráðið það af þessu að þess var freistað að ná eins víðtækri samstöðu um málin og hægt var.

Sú vinna sem fram fór í nefndinni var að mínu mati líka mjög góð og fagleg. Við fengum á fund okkar ótalmarga gesti. Það er hins vegar rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði að við vorum upptekin við önnur verkefni nefndarinnar á þeim tíma sem hefði getað nýtt til frekari vinnu og það setti einhvern svip á vinnu okkar. En ég tel þó að við höfum öll sem sátum í nefndinni verið að reyna eftir bestu getu, þekkingu og viti á þessu máli að komast að niðurstöðu sem við gætum varið fyrir sjálfum okkur og teldum skynsamlega að öllu leyti.

Þegar málið var afgreitt til 2. umr. stóð nefndin að því nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem þá voru lagðar fram en að vísu með fyrirvörum okkar þriggja hv. þingmanna, Sigurðar Inga Jóhannssonar, Jóns Gunnarssonar og mín. Fyrirvarar okkar hv. þm. Jóns Gunnarssonar lutu einmitt að tveimur málum sem við töldum ekki vera búið að skoða alveg til hlítar. Það er annars vegar það sem laut að geldingum grísa og halaklippingum á grísum. Hins vegar var það mál sem snýr að gildruveiðum á mink. Við gerðum grein fyrir því á sínum tíma í bókun sem fylgdi með nefndarálitinu þannig að það sjónarmið hefur verið þekkt frá upphafi.

Ég ætla að koma fyrst að því sem lýtur að minknum. Við hv. þingmaður höfum flutt breytingartillögu við frumvarpið eins og það lítur út eftir 2. umr. Í breytingartillögunni segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Óheimilt er að aflífa dýr með því að drekkja þeim nema um sé að ræða gildruveiði minka í því skyni að halda minkastofninum í skefjum. Tilkynna skal hvernig veiðunum er háttað til viðkomandi sveitarstjórnar.“

Við segjum einfaldlega að meginreglan sé sú að óheimilt sé að aflífa dýr með því að drekkja þeim. Þó er á því ein mikilvæg undantekning sem lýtur að minknum, sem er hreint meindýr í íslenskri náttúru og hefur bakað íslenskri náttúru mikið tjón eins og við vitum, fuglalífi, fiskum, öðrum dýrum og við þekkjum þetta allt saman. Minkurinn er aðskotadýr í íslenskri náttúru og hefur verið mikill meinvaldur. Veiðin hefur þróast með gildrum og þar hafa menn sýnt fram á m.a. með vísindalegum rannsóknum að árangurinn af veiðunum hefur verið talsverður og hefur tekist að halda minknum í skefjum, a.m.k. á tilteknum svæðum þar sem þetta hefur verið gert, og jafnvel nánast að útrýma honum alveg á einhverjum svæðum. Við vitum hins vegar að hann ferðast býsna vítt um og þess vegna verður að halda þessum veiðum áfram.

Rætt hefur verið um skipulagðar veiðar í þessu sambandi og það er kannski lykilatriði. Í því sambandi vil ég segja að minkaveiðar hafa verið stundaðar með skipulögðum hætti á stórum svæðum en einnig fyrir tilstilli einstakra landeigenda, t.d. veiðiréttareigenda og annarra sem haft hafa af því beina hagsmuni að halda minknum í skefjum. Við flutningsmenn teljum að það sé mjög mikilvægt að sá möguleiki verði áfram til staðar til að halda niðri því meindýri sem minkurinn sannarlega er. Þess vegna erum við ekki þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að vísa eingöngu til þess að gildruveiði sé heimil þegar um er að ræða skipulagðar, samræmdar veiðar, heldur geti verið um að ræða veiði sem stunduð er af einstökum landeigendum og veiðiréttarhöfum, veiðifélögum eða þess háttar í því sambandi. Við teljum hins vegar ekki óeðlilegt að um sé að ræða einhvers konar tilkynningarskyldu og í því sambandi höfum við lagt til að tilkynningarskyldan fari þá fram gagnvart viðkomandi sveitarfélagi þannig að þessar upplýsingar liggi fyrir á hverjum tíma.

Í öðru lagi laut fyrirvari okkar að geldingu grísa og klippingu á skotti eða hölum — maður hefur heyrt bæði hugtökin notuð — og geldingu grísa yngri en vikugamalla. Við fengum ábendingar frá Svínaræktarfélagi Íslands, starfandi svínabændum sem hittu nefndina. Að mínu mati fluttu þeir býsna sannfærandi rök fyrir máli sínu. Í fyrsta lagi drógu þeir í efa að það fyrirkomulag sem frumvarpið lýsir, eins og það leit út eftir 2. umr., leiddi í rauninni til aukinnar dýravelferðar. Það var rökstutt með því að það fyrirkomulag sem þar væri verið að taka upp, þ.e. að eingöngu dýralæknar gætu staðið að aðgerðum á grísunum með deyfingu, gæti leitt til þess, sérstaklega á minni búunum, að þær aðgerðir færu fram þegar dýrin væru orðin eldri. Þá væri aðgerðin umsvifameiri og meira inngrip væri í dýrið en þegar um væri að ræða aðgerð sem ætti sér stað á grísum yngri en vikugömlum. Það væri ómögulegt praktískt séð að þetta gæti verið gert, a.m.k. á minni búunum, áður en grísirnir yrðu vikugamlir, þess vegna þýddi það fyrirkomulag meira inngrip í dýrið sjálft af því að það yrði þá orðið eldra þegar aðgerðin yrði gerð, en það fyrirkomulag sem við leggjum til.

Í öðru lagi bentu þeir á að annar praktískur annmarki væri á málinu. Það væri einfaldlega skortur á dýralæknum og fulltrúi stórs svínabús sem kom á fund okkar sagðist t.d. hafa leitað í tvö ár án árangurs eftir dýralækni til að sinna verkunum á búi sínu. Það væri í sjálfu sér ekkert sem benti til þess að hægt væri að leysa það á mjög skömmum tíma, a.m.k. ekki á þeim skamma tíma sem ætlaður væri fram að því að lögin tækju gildi, sem væri um næstu áramót.

Loks bentu svínabændur á að í því landi, Danmörku, sem við höfum nú yfirleitt sótt okkar fyrirmyndir til í sambandi við svínaræktina, væri ekki um að ræða jafnstrangar kröfur og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þegar allt það væri saman tekið væri ekki óeðlilegt að við ætluðum mun lengri aðlögunartíma að þessu. Menn hafa rætt um að það mundi eiga sér stað til að mynda árið 2018, ef ég man rétt, það stendur í einhverjum evrópskum tilskipunum. Án þess að við fastsetjum einhverja sérstaka dagsetningu í þeim efnum er alveg nauðsynlegt að vekja athygli á því í þessu sambandi.

Ég tel ekki að með þeim tillögum sem við hv. þm. Jón Gunnarsson flytjum hvað varðar geldingu grísa yngri en vikugamalla eða það sem við höfum rætt varðandi klippingu á skotti og geldingu grísa yngri en vikugamalla séum við með einhverjum hætti að ganga þvert gegn hugmyndum manna um velferð dýra, alls ekki, alveg eins og ég hef vakið athygli á. Ég vek athygli á að í báðum tilvikum tölum við um að beitt sé verkjastillandi lyfjagjöf eins og upphaflega er gert ráð fyrir í frumvarpinu.

Það fyrirkomulag sem við leggjum til, við hv. þingmaður, er eingöngu það fyrirkomulag sem er að finna í því frumvarpi sem hæstv. atvinnuvegaráðherra flutti. Sú breyting sem við leggjum til er sú tillaga sem er að finna í 15. gr. frumvarpsins, en með þeim breytingartillögum sem gerðar voru við 2. gr. frumvarpsins er það tæknilega þannig að við gerum breytingar á 16. gr. eins og frumvarpið liggur fyrir nú eftir 2. umr.

Ég ítreka að við sjáum að við undirbúning frumvarpsins var mjög víða leitað fanga. Reynt var að ná niðurstöðu um tiltekin mál. Við sjáum það hins vegar á umsögnum að sú niðurstaða var alls ekki óumdeild. Mjög margir töluðu fyrir því að ganga þá leið sem niðurstaða varð um eftir 2. umr. málsins en eftir að hafa hlýtt á sjónarmið svínaræktenda, sem ég tel að hafi flutt efnisleg rök fyrir sínu máli, er það niðurstaða okkar að skynsamlegra væri að halda sig við það sem frumvarpið lagði til í upphafi þó að við útilokum alls ekki að þegar fundin verður praktísk lausn á viðfangsefninu verði gengið lengra í átt til þess sem rætt er um í frumvarpinu eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. En á þessu stigi teljum við að ekki sé skynsamlegt, m.a. með hliðsjón af dýraverndunarsjónarmiðum, að ganga svo langt sem hér hefur verið lagt til. Við teljum þess vegna skynsamlegast að halda sig við þá fyrirætlan sem fram kom í frumvarpinu þegar það var á sínum tíma lagt fram og mælt fyrir af hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.