141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[14:29]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Fyrst og fremst vil ég þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir mikla og vandaða vinnu við þetta mál og reyndar þau tvö sem við höfum verið að ræða hér, frumvarp til laga um búfjárhald og nú frumvarp til laga um velferð dýra. Ég fagna því líka að að uppistöðu til er góð sátt um þessa viðamiklu kerfisbreytingu og almennt held ég að því sé ekki á móti mælt að í því er fólgin mikil framför enda gríðarmikið starf að baki í undirbúningi málsins og ágætur samhljómur um að fara þá leið sem hér er farin. Í fyrsta lagi á að samræma og sameina á einum stað forsvarið í þessum málaflokki. Í öðru lagi heyri ég engan mæla því í mót að innleiða þau nýju hugtök sem hér er byggt á, þ.e. að hugtakið „dýravelferð“ leysi af hólmi eldra og þrengra hugtak um dýravernd. Það breytir að sjálfsögðu ekki því að það er í fullu gildi, það góða hugtak, dýravernd, en hér er nálgunin víðtækari, að allt sem snýr að búfjárhaldi skuli byggja á nálguninni um velferð dýranna eins og fram kemur í 1. gr. í ljósi þess, eins og hér hefur komið fram, að dýr séu skyni gæddar verur og sömuleiðis að það beri að búa þannig að þeim að þau geti sýnt eftir því sem mögulegt er sitt eðlilega atferli á líftímanum.

Hér kemur heildstæð löggjöf og meðferð þessara mála er sameinuð á einum stað undir einu stjórnvaldi. Ég held að það hljóti allt að teljast vera til bóta.

Ég vil aðeins segja varðandi breytingartillögu frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem hér bar á góma áðan, að ég deili sjónarmiðum með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, það þarf að huga að því áður en reglusetning um tiltekna hluti er beinlínis tengd við tiltekin ákvæði laga eða frumvarpa en ekki önnur. Mér finnst það algerlega liggja í hlutarins eðli að ráðherrann er umfram allt annað bundinn af anda laganna og skýrum ákvæðum þeirra. En hver er nú andi þessa frumvarps ef af lögum verður? Jú, hann er dýravelferð. Það leiðir því algerlega af sjálfu að meginákvæði frumvarpsins þar um, eins og 1. gr. og eftir atvikum 1.–3. mgr. 29. gr. og 6. gr. laganna, kemur þar við sögu. Þar af leiðandi held ég í fyrsta lagi að breytingartillaga af þessu tagi sé óþörf og í öðru lagi held ég að hún geti verið varhugaverð.

Ég bendi til dæmis á að væri ekki tilvísun hvað þessa reglusetningu varðar í 15. gr., sem er mjög fortakslaus, hún bannar það sem getur ofboðið dýrum, þá kynnu menn að velta fyrir sér: Eiga þau ákvæði að hafa minna vægi við þetta en þau sem beinlínis er vitnað til? Ég held að það sé betra að nálgast það á þessum almennu nótum. Að sjálfsögðu verður reglugerð og reglusetning af þessu tagi að vera í samræmi við almennan anda laganna, um markmiðsgrein þeirra og inntak. Öðruvísi fær hún ekki staðist, öðruvísi hefur hún ekki fullnægjandi lagastoð. Ég teldi því hyggilegra að beita þessari lögskýringu og túlkun og ef enginn mælir henni í móti þá skulum við segja að það standi þá í þingtíðindum að þannig sé þetta hugsað.

Þrátt fyrir tiltölulega breiða sátt og samstöðu um málið hafa auðvitað nokkur atriði orðið tilefni til skoðanaskipta eins og gjarnan vill verða og sitt sýnst hverjum. Það varð strax ljóst í undirbúningi málsins og ekki var full samstaða um öll efnisatriði sem komu frá þeirri nefnd sem undirbjó málið. Eftir yfirferð í ráðuneytinu var það í hið fyrsta sinn lagt fram með nokkrum breytingum frá því sem varð niðurstaða starfshópsins og sættu sum efnisatriðanna gagnrýni við þinglega meðferð. Málið var þar af leiðandi lagt endurflutt nú í haust með tilraunum til málamiðlana í nokkrum tilvikum. Flestar hafa þær fallið í góðan jarðveg og standa hér eftir umfjöllun þingnefndarinnar, en í öðrum tilvikum er þar gerð breyting á. Það má nefna sem dæmi að nokkur skoðanaskipti voru uppi um hugtakið „gróið land“ og hvort fullnægjandi væri að taka fram í lagatextanum að land þar sem grasbítar skyldu hafa útivist væri gróið. Niðurstaðan varð sú að leggja til hér hugtakið „beitarhæft land“.

Þá hafa verið nefnd atriði sem enn hafa verið til umfjöllunar, þ.e. minkagildrurnar og gelding ungra grísa. Varðandi það hvernig búið er um það núna eftir umfjöllun nefndarinnar og að aflokinni 2. umr. varðandi minkagildrurnar er hér enn á ferð breyting í breytingartillögu meiri hlutans hvað það varðar og tel ég að það sé mjög ásættanleg niðurstaða ef hún verður til samkomulags um málið. Ég er algjörlega sammála því að undanþágu frá hinu fortakslausa banni um að óheimilt sé að aflífa dýr með því að drekkja þeim, beri að skilgreina þröngt og verður að færa sterk fagleg rök fyrir því að svo sé gert. Þá verður umbúnaðurinn um það líka að vera vandaður. Ég sætti mig prýðilega við það og tel það góða lausn að það sé bundið við skipulagðar og viðurkenndar aðgerðir og að Umhverfisstofnun sé upplýst um slíkt.

Svipað gildir um það að meiri hluti nefndarinnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að leggja til að ákvæði um að heimila geldingu ungra grísa, þótt með verkjastillandi lyfjum væri, verði fellt brott. Þá er það niðurstaða sem ég tel að við eigum að standa að. Það verður þá að koma í ljós ef einhverjir annmarkar verða á framkvæmd þess sem kalla á mögulegar breytingar. Til þess hafa menn tíma til áramóta eftir atvikum, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi, með breytingu á lögum og öðru slíku sem heimila þá bændum sjálfum eftir atvikum að framkvæma deyfinguna. Til dæmis væri hægt að hugsa sér að til slíks væri hægt að veita undanþágur ef dýralæknar koma því ekki við o.s.frv., eins og nefnt var áðan, þ.e. ef það gæti skapað vandamál, og að hægt væri að framkvæma aðgerðina strax á fyrstu dögum grísanna af praktískum ástæðum á litlum svínabúum langt í burtu frá dýralæknaþjónustu. Ráðuneytið getur þá farið yfir það og notað tímann fram til haustsins til að skoða það betur.

Ég endurtek að lokum þakkir mínar til hv. nefndar fyrir mikla og vandaða vinnu og fagna því mjög að þessi mál séu að komast hér til afgreiðslu. Bara að lokum fyrir þá sem það þurfa að tryggja, þá er auðvitað alveg ljóst að Matvælastofnun þarf að fá umtalsverða fjármuni og góðar aðstæður til þess að standa myndarlega að framkvæmd laganna. Þetta er allviðamikið verkefni sem bætist við stofnun sem fyrir er mjög lestuð af þungum verkefnum sem aukist hafa undanfarin ár, svo sem eins og innleiðing matvælalöggjafarinnar og allt eftirlit með henni og endalausar innleiðingar á ýmsum nýjum tilskipunum þar að lútandi. Ég hlýt því sem ráðherra yfir stofnuninni að mæla þau varnaðarorð hér að það er algerlega óumflýjanlegt að horfast í augu við það að Matvælastofnun verður að tryggja fjárhagslega burði til að standa vel að innleiðingu og framkvæmd laganna.