141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

afturköllun dagskrártillögu.

[16:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær var lögð fram tillaga um dagskrárbreytingu sem sneri að framkvæmdum á Bakka. Það var gert til að tryggja að það mál mundi ganga hér fram þannig að tryggt væri að þingið lyki ekki störfum án þess að hafa tekið afstöðu til þess. Þetta mál er mikilvægt vegna þess að það snýr að atvinnuuppbyggingu og fjárfestingu í landinu þegar svo sárlega vantar slíkt.

Þar sem nú hefur náðst samkomulag um það, bæði á fundi formanna og þingflokksformanna, að þessi mál munu koma til afgreiðslu var engin ástæða til annars en draga þessa tillögu til baka. Það hefur verið gert, virðulegi forseti.