141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[16:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Minkurinn er meindýr í íslenskri náttúru. (Gripið fram í.) Ég hef um áratugi farið fram á Arnarvatnsheiði og stundað þar silungsveiði. Þar hefur ekki á síðustu árum verið mikið mófuglalíf en mikið af mink og það sannast mjög þar hve skaðleg áhrif minkurinn hefur í umhverfi sínu.

Við höfum líka gagnrýnt það hér, margir þingmenn, hversu mikið eftirlitsiðnaðurinn á Íslandi hefur blásið út (Gripið fram í: Já.) (Gripið fram í: Já.) og að við höfum sett það í forgang að eftirlitsiðnaðurinn og hið opinbera komi að öllu eftirliti með mjög þröngum skilyrðum. Hér er verið að leggja það til að þeir bændur, þeir landeigendur, þeir veiðimenn, þau veiðifélög, sem standa fremst í því úti um landið að eyða þessum vágesti í íslenskri náttúru, gætu gert það með því að tilkynna það til sveitarfélags síns að þau væru að vinna þannig að þessum málum, að eyða þessum vágesti úr íslenskri náttúru.

En frumvarpið gerir ráð fyrir því að leita þurfi til (Forseti hringir.) Umhverfisstofnunar vegna þess. (Gripið fram í: Ooó …) [Háreysti í þingsal.] Við viljum hafa þetta einfalt. Við viljum hafa þetta eins einfalt og hægt er (Forseti hringir.) þannig að menn geti stundað þetta með sama hætti og með þeim áhrifamestu aðferðum sem völ er á.