141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[16:28]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tel að breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur sé vel meint en ég óttast að hún mundi gefa hættulegt fordæmi vegna þess að það að tiltaka sérstaklega einstakar greinar í lagafrumvarpi sem ráðherra beri að hafa til hliðsjónar við setningu reglugerðar getur boðið heim þeirri hættu að aðrar greinar séu þá ekki jafnbindandi fyrir ráðherrann. Ég bendi t.d. á 15. gr. frumvarpsins sem ég hefði talið að væri mjög mikilvægt að tiltaka sérstaklega en er ekki í breytingartillögu þingmannsins. Ég greiði atkvæði gegn breytingartillögunni, enda tel ég það mjög skýran áskilnað að ráðherrar fari að öllum greinum laga við setningu reglugerða í þessu tilviki sem öðrum.