141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[16:30]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil við lokaafgreiðslu þessa máls þakka hv. atvinnuveganefnd og öllum þingmönnum sem hafa komið að mikilli og vandaðri vinnu við að ljúka umfjöllun um þá viðamiklu löggjöf sem hér er að verða að veruleika og fá samþykki eftir mikinn undirbúning og mikið starf. Það er fagnaðarefni og það er sómi að því að eitt af síðari verkum þessa kjörtímabils og þessa Alþingis er að ljúka þessari vinnu, að við fáum nýja heildstæða löggjöf um dýravelferð. Það er eins vel að þessum hlutum búið og mögulegt er, að ég tel, í lögum og í góðri og breiðri sátt eins og við sjáum á töflunni. Þá er í raun aðeins eitt eftir og það er að framkvæmdaaðilum laganna verði sköpuð til þess skilyrði að innleiða þau og annast vel um framkvæmd þeirra. Á ég þar einkum við Matvælastofnun sem augljóslega þarf að fá til þess nokkra fjármuni að standa sómasamlega og vel að því vandasama verkefni sem er að tryggja góðan aðbúnað og velferð í öllu dýrahaldi í landinu.