141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[16:36]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Komið er til lokaafgreiðslu frumvarp sem er ágætisdæmi um það að Alþingi getur tekið frumkvæði í lagasetningu og staðið saman um slík verkefni. Þetta mál fjallar um það að leiðrétta glufu í löggjöf okkar sem hefur verið sú að kynferðisbrot gegn börnum innan fjölskyldu hafa verið með lægri refsiramma en brot gegn börnum utan fjölskyldu. Þetta hefur skapað ósamræmi við ríkjandi dómaframkvæmd og er mikilvægt að leiðrétta í eitt skipti fyrir öll.

Ég vil einnig láta þess getið að mikil og góð samstaða hefur verið í allsherjar- og menntamálanefnd um þetta mál sem og um vinnu við að bregðast við mikilli fjölgun mála í þessum málaflokki og lengingu málsmeðferðartíma. Allsherjar- og menntamálanefnd mun á allra næstu dögum skila frá sér tillögum til stjórnvalda um úrbætur í þessu efni.