141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[19:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Við höldum áfram að ræða í 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla sem snúa kannski fyrst og fremst að Landbúnaðarháskólanum og því samstarfi sem þar er. Ég vil í upphafi ræðu minnar hnykkja aðeins á því sem hefur komið fram í gagnrýni á málið og lýtur að búfræði- og garðyrkjunámi. Það kemur reyndar skýrt fram í meirihlutaálitinu frá allsherjar- og menntamálanefnd þar sem þess er getið að gagnrýnt hafi verið töluvert að ekki sé gert ráð fyrir formlegu utanumhaldi um búfræði- og garðyrkjunámið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, en hins vegar ítrekar nefndin að auðvitað sé mikilvægt að það verði í þeim farvegi sem það er.

Það er ekki búið að gera þá breytingu á lögunum þannig að mikilvægt er að hafa það til umræðu og hugsanlega mikilvægt fyrir nefndina að fara yfir það á milli 2. og 3. umr.

Mig langar líka að gera að umtalsefni svokallað samstarfsnet sem er gert ráð fyrir að verði lögfest núna. Það kemur fram í frumvarpinu, og ég geri athugasemdir við það, virðulegur forseti, að ekki gert ráð fyrir neinum kostnaðarauka við samþykkt laganna nema þeim sem snýr að svokölluðu samstarfsneti, þó svo það komi fram í frumvarpinu og í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að eftir eigi að meta það sem varðar starfsmenntanámið inn í reiknilíkanið um breytingarnar á lögunum, það er ekki gert ráð fyrir því. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að það sé vantalinn kostnaður. Ég ætla svo sem ekki að fullyrða neitt um það, en það kemur samt fram í umsögninni. Eini kostnaðaraukinn sem er gert ráð fyrir eru þær 50 millj. kr. sem felast í því að lögfesta samstarfsnetið.

Það er ágætt að rifja upp í umræðunni að í upphafi var þetta kynnt og afgreitt í gegnum þingið og hv. fjárlaganefnd sem tveggja ára tímabundið verkefni, þ.e. kostnaðurinn við það voru 300 millj. kr. á árinu 2011 og 2012. Þannig var það samþykkt í þinginu. Síðan kom það í fjárlagagerðina síðastliðið haust þar sem var tekin sú ákvörðun að halda áfram í tveggja ára tímabundnu verkefni og settar voru 300 millj. kr. í það til viðbótar. Þá urðu mjög margir hissa og sögðu að gert hefði verið ráð fyrir 300 milljónum í tvö ár en núna væri verið að samþykkja 300 milljónir til viðbótar næstu tvö árin þannig að 600 millj. kr. færu í verkefnið. Eðlilega spurðu hv. þingmenn hvernig á því stæði, hvort undirbúningurinn hefði ekki verið nægilegur og kölluðu eftir rökum í málinu.

Það næsta sem gerist í málinu er dálítið merkilegt. Fram kemur frumvarp um lög um opinbera háskóla sem gerir ráð fyrir því að kostnaðurinn inn í framtíðina verði fastar 50 milljónir eftir þessar 600 milljónir. Það er auðvitað mikilvægt að átta sig á því að væntanlega hefur frumvarpið verið komið langt í smíðum í menntamálaráðuneytinu þegar beiðnin um tímabundna fjárveitingu upp á 300 millj. kr. í tvö ár kom inn í þingið. Ég er ekki að halda því fram að því hafi verið laumað inn á einhvern hátt, en það kveikir einhvern veginn þau viðvörunarljós hjá mér að undirbúningurinn fyrir verkefnið hafi hugsanlega ekki verið nægilega góður.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að stofnkostnaðurinn er töluvert mikill og þetta nýtist vel, það er ekki ágreiningur um það. Ég held hins vegar að þetta sé skýrt dæmi um hversu mikilvægt er að vanda sig við undirbúning mála.

Síðan var það kynnt og ég fór yfir ræður margra hv. þingmanna. Ég las til dæmis ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar sem var formaður allsherjar- og menntamálanefndar þegar málið kom inn og kom mjög skýrt fram í máli hans, og ég var alveg sammála því, að þetta gæti líka þróað okkur í þá veru að meta kosti og galla þess að sameina háskólana. Nú höfum við ekkert um það í höndunum hvað kostar í raun og veru að gera það svona. Ég verð að segja að ég er dálítið hugsi yfir því að þetta komi inn sem tímabundin framkvæmd og verði að föstum lið inn í fjárlögunum verði frumvarpið samþykkt.