141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[19:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið erum við að ræða breytingu á lögum um opinbera háskóla. Ég hef talað áður í þessu máli en það er nokkuð langt um liðið, virðulegi forseti. Ég átti eftir að fara yfir nokkur atriði í frumvarpinu sem ég tel að séu jákvæð. Ég er almennt hlynnt því sem kemur fram í frumvarpinu, að það skuli fara fram samstarf á milli þeirra háskóla sem eru í opinberri eigu eða reknir fyrir almannafé. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um þá skóla sem ekki eru einkareknir.

Það sem ég er hrifin af í þessu frumvarpi er varðandi 4. gr. Stundum er talið að háskólanám hér á landi standist ekki samanburð við nágrannaríki okkar. Þeir sem hafa viljað tala niður fjölda háskóla hér á landi hafa verið að beita þessum rökum. Í 4. gr. er hnykkt á því hver starfsheitin eru og hvaða þekkingu og reynslu þeir hafi sem kenna við þessa háskóla og að sú þekking og reynsla skuli vera í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði. Það skal vera staðfest með áliti dómnefndar til dæmis með hvaða hætti doktorspróf er skilgreint frá viðurkenndum háskóla.

Í greinargerð með frumvarpinu segir í 4. gr., með leyfi forseta:

„Samkvæmt breytingum á lögum um háskóla, nr. 63/2006, sem samþykktar voru á 140. löggjafarþingi, var lögfest að þeir sem bera starfsheiti prófessora, dósenta, lektora og sérfræðinga skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla. Í gildandi lögum um opinbera háskóla er gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmenn hafi lokið meistaranámi hið minnsta. Í þeim nágrannaríkjum Íslands sem oftast eru höfð til samanburðar er doktorspróf í flestum tilvikum forsenda fyrir ráðningu í akademísk störf. Með frumvarpsgreininni er ætlað að tryggja gæði kennslu og rannsókna í opinberum háskólum og að þekking og reynsla sé í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á hverju fræðasviði. Þetta ákvæði á ekki við um aðjúnkta og stundakennara enda ekki gerð krafa um doktorspróf hjá þeim.“

Þarna, virðulegi forseti, er verið að undirstrika gæði kennslunnar hér á landi, að mínu mati, hjá opinberu háskólunum og því fer ekkert á milli mála hver er tilgangur 4. gr.

Eins er ég hrifin af 5. gr. sem ég hef ekki rætt áður í þessu máli. Hún varðar að háskólunum er heimilt að taka umsýslu- og afgreiðslugjöld umsókna frá nemendum sem eru með ríkisfang fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið, að undanskildum Færeyjum og Grænlandi.

Virðulegi forseti. Færst hefur mjög í vöxt hér á landi og aðallega við Háskóla Íslands að mjög margar umsóknir sem þarf að sinna hafi borist frá ríkjum utan EES. Í greinargerð um 5. gr. kemur fram að þetta er allverulegur fjöldi, á bilinu 1.600–2.000 umsóknir, þá er vísað til ársins 2011 því ekki er nákvæmlega sagt á milli ára. Á einhvern hátt verður að bregðast við þessum umsóknum og svara þeim umsækjendum sem sækja um skólavist. Þá þarf apparat að vera til staðar sem getur tekið á þessum fjölda umsókna og samkvæmt frumvarpinu er þetta dýrt og tímafrekt. Þarna er því verið að bregðast við því að uppfylla þurfi skilyrði um greiðslu með umsókninni sem er mjög eðlilegt.

Virðulegi forseti. Ég sakna þess svolítið í frumvarpinu og hérna í greinargerðinni að ekki er fjallað um hvernig Norðurlöndin hafa þetta. Það hlýtur að vera sama ásókn þessara aðila í háskólanám á Norðurlöndunum og einnig vantar upplýsingar um hvort norrænir opinberir háskólar hafi tekið upp slíkt gjald. Vert væri að athuga milli 2. og 3. umræðu hvernig þessu er háttað í nágrannaríkjum okkar.

Virðulegi forseti. Ég verð því miður að ljúka máli mínu því tími minn er liðinn.