141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[20:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Í fyrsta lagi er ágætt að segja það hér í upphafi að það sem er jákvætt við frumvarpið er að verið er að lögfesta svokallað samstarfsnet háskólanna eða háskólanetið, sem felur í sér samstarf á milli opinberu háskólanna sem hefur reynst mjög vel undanfarin ár og varð til upp úr umræðu sem meðal annars varð í kringum umræðu um að sameina ætti alla háskólana í einn opinberan háskóla. Það mætti mikilli andstöðu, rétt eins og fram kom hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni á undan mér. Eftir það var ákveðið að fara þessa samstarfsleið sem felur í sér samstarf háskólanna, þeir mynda ákveðið samstarfsnet og það hefur gefist mjög vel. Sá þáttur í þessu frumvarpi er mjög jákvæður, það er jákvætt að verið sé að formgera hann núna og lögfesta hann.

Það sem hefur hins vegar verið gagnrýnt við frumvarpið er hvernig ákveðnir þættir, eða sá hluti sem snýr að námi við Landbúnaðarháskóla Íslands og við Háskólann á Hólum eru færðir undir sömu löggjöf og opinberu háskólarnir búa við í dag.

Það hefur verið gagnrýnt í frumvarpinu að með því gætu þessir skólar, og sérstaklega námsbrautir sem snúa að búfræði og garðyrkju, tapað miklum tengslum við atvinnugreinarnar og við atvinnulífið. Menntamálaráðuneytið hefur reyndar svarað þessu í minnisblaði og telur svo ekki vera og telur að nægilega vel sé búið um hnútana með þessum lögum, að skólarnir geti haldið sjálfstæði sínu og geti rekið slíkar starfsbrautir áfram.

Ég er sammála þeim sem hafa gagnrýnt frumvarpið út frá því að hér er verið að draga úr tengslum atvinnulífsins við þetta nám, við þetta gríðarlega mikilvæga nám í þessum skólum. Í stefnu Framsóknarflokksins, sem samþykkt var á síðasta flokksþingi, er meðal annars fjallað um tengsl menntunar og atvinnulífs.

Þar segir, með leyfi herra forseta:

„Stefna skal að því að efla nám í verk-, tækni-, hönnunar- og listgreinum á öllum skólastigum og efla tengsl þessara námsgreina við atvinnulífið.“

Síðan segir:

„Þannig verði unnið að því að koma til móts við þarfir atvinnulífsins um vel menntað starfsfólk og að starfsfólki standi til boða nám sem eykur möguleika þess á vinnumarkaði og bætir réttindi og starfsöryggi. Boðið verði upp á leiðir til að nýta raunfærnimat til að meta reynslu í atvinnugrein til réttinda. Lögð verði áhersla á nýsköpun og menntun frumkvöðla.“

Framsóknarflokkurinn leggur gríðarlega áherslu á að menntun sem þessi, búfræðinámið og garðyrkjunámið sé í góðum tengslum við atvinnulífið og þessar stofnanir séu í góðum tengslum við atvinnulífið. Það er verið að fella á brott lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, og um leið og verið er að gera þá breytingu að þeir skólar sem féllu undir þau lög falli nú undir lög um opinbera háskóla. Það er ekki gengið nægilega langt í frumvarpinu að tryggja tengsl þessara atvinnugreina við þessa menntun og við búfræðinámið og við garðyrkjunámið.

Við höfum séð að ásókn í nám, bæði á sviði búfræðslu og á sviði garðyrkju, er að aukast og gríðarleg sóknarfæri felast í því fyrir okkur Íslendinga og ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem hefur vaxið margfalt á undanförnum árum. Það er mjög mikilvægt að við séum ekki að veikja þessi tengsl meira en orðið er. Það hefði þurft að bregðast við. Menntamálaráðuneytið svarar þessu í minnisblaði. Í nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er líka fjallað um þetta minnisblað frá menntamálaráðuneytinu og að þurft hefði að bregðast við þessu með skýrari hætti. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að þeim þætti eigi Alþingi að hafna og taka til skoðunar og breyta.

Um leið, eins og ég sagði hér í upphafi máls míns, ber að fagna því að verið sé að lögfesta samstarfsnet háskólanna, opinberu háskólanna, sem hefur gefist mjög vel. Ég vona svo innilega að menn muni verða við þessu og styrkja tengslin á milli atvinnulífsins og þessara menntastofnana.