141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[20:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Ég hef í fyrri ræðum mínum fjallað talsvert um nokkra af helstu þáttum frumvarpsins og þau álitamál sem ég tel að séu óleyst í frumvarpinu. Þau varða fyrst og fremst aðskilnað búnaðarnáms frá háskólanáminu. En það eru auðvitað fleiri þættir sem við þurfum að ræða þegar við tölum um opinbera háskóla og kannski er mikilvægast að við áttum okkur á því að á næstu árum þurfum við að taka á ýmsum veigamiklum þáttum í samfélagi okkar sem eru mjög kostnaðarsamir.

Við þurfum að byggja upp menntakerfið. Við höfum í gegnum árin verið að lengja grunnskólann um sennilega ein tvö ár án þess að það hafi skilað sér í því að nemendur hafi komið betur undirbúnir til framhaldsskólanáms. Við búum enn við gríðarlegt brottfall í framhaldsskólanum og hafa margir bent á að þrýstingurinn hafi aukist á háskólastiginu með því að framhaldsskólarnir hafa tekið á sig undirbúning nemenda fyrir háskólanám sem koma eftir tíu ára grunnskólanám ekki betur undirbúnir en raun ber vitni og flosna upp úr námi einhverra hluta vegna.

Það er tímabært að velta því fyrir sér hvort við séum á réttri leið og hvort þeim fjármunum sem við nýtum til skólagöngunnar frá leikskóla til háskóla sé rétt varið. Við höfum á liðnum árum talað mikið um að nauðsynlegt sé að efla verk- og hönnunar- og sköpunarnám og örva fleiri nemendur til að fara í slíkar greinar, m.a. með því að undirbyggja raungreinanám í grunnskóla, jafnvel í leikskóla, og með einhverjum hætti að örva þá vinnu með skýrari hætti en við gerum. Við tölum um það í ræðustól og úti í samfélaginu, og þetta gildir um alla flokka, en með verkum okkar höfum við ekki tekið á þessu máli með nægilega skýrum hætti.

Nú stöndum við frammi fyrir því að við munum ekki hafa fjármuni til allra hluta á næstu árum. Auðvitað þarf að skipta um atvinnustefnu, að byggja upp atvinnulífið þannig að við nýtum þau tækifæri sem eru hvarvetna til lands og sjávar, ekki síst að efla og ýta undir að þekkingariðnaðurinn. Mannshugurinn, sem er hin ótakmarkaða auðlind okkar, nýtist hér til atvinnusköpunar, m.a. á nýjum störfum, til framleiðslu og til gjaldeyrissköpunar. Þannig getum við staðið undir menntakerfi, opinberum háskólum, heilbrigðiskerfi, því velferðarkerfi sem við viljum standa undir og bætt kjör aldraðra og öryrkja, svo fátt eitt sé nefnt, fyrir utan það að við þurfum að taka á þeim gríðarlega vanda sem hangir yfir okkur, þ.e. snjóhengjunni, skuldavanda heimilanna og öðru slíku.

Því er mikilvægt þegar við fjöllum um frumvarp sem þetta, sem sátt er um að stóru leyti, að við gerum okkur það í hugarlund hvernig við ætlum að standa undir slíkri uppbyggingu. Ég er í miklum vafa um að þær leiðir sem mest hafa verið í umræðunni upp á síðkastið séu réttar, ég er reyndar fullviss um að sú stefna sem núverandi ríkisstjórn hefur fylgt sé röng og að við munum aldrei geta staðið undir þeim kerfum sem ég nefndi, hvort sem það er menntakerfi, heilbrigðiskerfi eða aðrir þættir, ef við breytum ekki um stefnu.

Það eru fleiri þættir sem taka þarf á og ég sé að ég muni ekki hafa tíma til þess að fjalla um það í þessari afar stuttu ræðu. En ég vildi sem sagt koma hér og ítreka þá skoðun mína sem ég hef haft í fyrri ræðum um málið, að sú hlið er snýr að samstarfsnetinu er jákvæð, (Forseti hringir.) en það sem snýr að uppskiptingu á milli búnaðarskóla og háskóla þarf að skoða betur eftir kosningar.