141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

virðisaukaskattur.

639. mál
[21:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að það er að brotna undan ríkisstjórninni, (Gripið fram í: Molna undan.) molna undan henni með mjög áberandi hætti. En þetta mál er í sjálfu sér einfalt. Þetta snýr að því að ná betra eftirliti …

(Forseti (ÁÞS): Forseti óskar eftir því að hv. ræðumanni verði gefið hljóð til þess að flytja mál sitt.)

Þakka þér fyrir, virðulegi forseti. Þetta mál er í sjálfu sér einfalt, það gengur út á að breyta lögum með það að markmiði að bæta skattskil. Hér er verið að heimila ríkisskattstjóra frekari úrræði til að bæta skattskil, af þeirri einföldu ástæðu að flestir ef ekki allir eru sammála um að það er fullkomlega óþolandi að hér geti viðgengist að skattskil séu mismunandi, þ.e. að aðilar sem standa í skilum þurfi að keppa við þá sem skila ekki því sem skila ber í ríkissjóð.

Það var áhugavert sem kom fram þegar við vorum að fara yfir þetta mál að um 20% af þeim sem eru á virðisaukaskattsskrá nýta sér það að fá áætlun. Áætlun er alla jafna ekki lág. Samt sem áður er það úrræði ekki nægjanlegt og það er of mikil teygja í framkvæmd eða í lögunum sem gerir að verkum að þess eru jafnvel dæmi að aðilar telji að þeir hagnist á því að fá áætlun og/eða þeir nýti sér þau tímamörk sem eru til staðar og greiði jafnvel ekki skattinn. Það sem verið er að gera hér, svo að maður reyni að segja það á venjulegri íslensku, er að gera yfirvöldum kleift að grípa inn í og stöðva starfsemi viðkomandi fyrirtækja ef rökstuddur grunur er um að ekki sé allt með felldu og að ríkissjóður sé að bera skarðan hlut frá borði.

Þess vegna, virðulegi forseti, er góð sátt um þetta frumvarp sem flutt er af hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggjum því til að það verði samþykkt.