141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

hlutafélög.

661. mál
[21:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé nú töluvert mikilvægt vegna þess að hér er hluthöfum gefinn kostur á því, ef þeir tilkynna það viku fyrir aðalfund, að leggja fram ákveðin mál á dagskrá. Þetta er dagskrárvald fyrir litla hluthafa. Það er ekkert lítið mál miðað við hvernig aðalfundir fara fram.

Það sem ég lagði til við nefndina var að í stað aðalfundar stæði félagsfundir eða hluthafafundir, sem er víðara hugtak en aðalfundir. Það var ekki hlustað á það og mér þykir það miður. Ég vildi að þetta ætti ekki bara við um boðun aðalfunda heldur líka boðun hluthafafunda, sem er miklu víðara hugtak, að viku fyrir boðun aðalfundar gætu hluthafar komið með athugasemdir og óskað eftir því að ákveðin mál væru tekin á dagskrá.

Þetta er ekkert lítið eða ómerkilegt mál. Eins og áður varð um þetta mikil sátt í nefndinni en mér finnst miður að menn skuli ekki hafa hlustað á athugasemdir um að setja inn hugtakið hluthafafundur í staðinn fyrir aðalfund.