141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

465. mál
[22:02]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér mæli ég fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn, sem fjallar um umhverfismál og er á þskj. 1105.

Hér er verið að leita heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá því í október 2012 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn og til að fella inn í hann ýmsar reglugerðir þar að lútandi.

Reglugerðin sem hér um ræðir kveður á um stofnun og notkun á valfrjálsu umhverfismerkjakerfi Evrópusambandsins með það að markmiði að hvetja til notkunar vara, sem eru afar vistvænar, með því að nota umhverfismerki ESB. Settar eru kröfur um viðmiðanir, svo sem áhrif vöru á náttúruna, á loftslagsbreytingar, á orku- og auðlindanýtingu og svo framvegis.

Innleiðing þessarar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til innleiðingar á ákvæðum reglugerðarinnar og er það 287. mál.

Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing þessarar reglugerðar muni hafa í för með sér teljandi efnahagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar og leggur utanríkismálanefnd til að þessi tillaga verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Lúðvík Geirsson, Álfheiður Ingadóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.