141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (vaxtabætur vegna lánsveða).

Með frumvarpinu er lagt til að einstaklingum sem tekið hafa lán með lánsveðum verði veittur sérstakur fjárhagslegur stuðningur. Sá hópur skuldara sem er með lánsveð hefur að nokkru lent utan almennra aðgerða vegna skuldavanda heimilanna þar sem lánsveð hafa t.d. ekki verið tekin inn í myndina í 110%-leiðinni svokölluðu. Þá er það nokkuð mismunandi eftir kröfuhöfum hvaða leiðir til lausnar skuldavanda sínum þessum skuldurum hefur boðist. Stuðningnum sem þessum einstaklingum er veittur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er ætlað að koma að einhverju leyti til móts við þann kostnað sem þeir hafa orðið fyrir við það að leiðrétting höfuðstóls lána þeirra hefur tafist miðað við aðra skuldara sem hafa fengið lækkun á höfuðstóli lána sinna í gegnum 110%-leiðina. Einstaklingar með lánsveð hafa þannig haft meiri vaxtakostnað en aðrir en þó ber að halda því til haga að allar vaxtagreiðslur vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota veita rétt til vaxtabóta, einnig lán með lánsveði.

Í frumvarpinu eru vaxtabætur vegna lánsveða bundnar nokkrum skilyrðum. Þannig er í fyrsta lagi skilyrði að íbúðareigandi hafi átt fasteignina 31. desember 2010 og ekki fengið höfuðstól lána með lánsveð lækkaðan fyrir gildistöku laganna. Þá eru það einungis lán sem stofnað var til vegna fasteignakaupa frá 1. janúar 2004 til og með 31. desember 2008 sem mynda rétt til greiðslu vaxtabóta. Lánsveðsbæturnar mega ekki vera hærri en 160 þús. kr. hjá einstaklingi og 280 þús. kr. hjá hjónum. Þá er lögð til sú regla að ef heildarfjárhæð vaxtabóta verður hærri en 500 millj. kr. skerðist allar útreiknaðar lánsveðsvaxtabætur hlutfallslega. Til að eiga möguleika á að fá greiddar lánsveðsvaxtabætur þurfa þeir einstaklingar sem telja sig eiga rétt á þeim að sækja um þær eigi síðar en 15. september 2013 og leggja fram nauðsynleg gögn og skal ríkisskattstjóri ákvarða þeim vaxtabætur eigi síðar en 15. janúar 2014. Lánsveðsvaxtabætur skulu reiknaðar þannig að þær nemi 2% af mismun á eftirstöðvum allra fasteignaveðlána 31. desember 2010 og 110% af fasteignamati þeirrar fasteignar sem lánið var tekið til kaupa eða byggingar á.

Málið var talsvert mikið rætt á fundum efnahags- og viðskiptanefndar. Á fundum nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að lánsveðsvaxtabæturnar ættu að greiðast inn á höfuðstól lánanna fremur en að vera greiddar út til lántakenda. Með því að greiða þær út til lántakenda mundu bæturnar að mestu leyti fara í neyslu og þannig hugsanlega auka verðbólgu. Gegn framangreindu voru færð þau sjónarmið að almennt ætti ríkisvaldið að hlutast sem minnst til um það hvernig borgararnir ráðstafa fjármunum sínum. Þá kom einnig fram að líklegt væri að margir lántakendur væru með mun dýrari lán en fasteignaveðlán, t.d. yfirdráttarlán eða kreditkortalán, sem hagstæðara væri að borga niður en að láta lánsveðsvaxtabæturnar ganga inn á höfuðstól þess fasteignaveðláns sem tryggt er með lánsveði. Nefndin telur rétt að löggjafinn fari varlega í að ráðstafa fjármunum borgaranna að þeim forspurðum og telur því rétt að lánsveðsvaxtabæturnar verði greiddar út til þeirra sem rétt eiga á þeim.

Nefndinni barst umsögn frá ríkisskattstjóra um málið þar sem eru gerðar allnokkrar athugasemdir við efni þess. Þannig telur ríkisskattstjóri í fyrsta lagi að ljóst sé að umsóknir um lánsveðsvaxtabætur muni ekki verða afgreiddar á rafrænan hátt og að ófrávíkjanleg umsóknardagsetning ákvæðisins sé ekki í samræmi við 2. mgr. 101. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og kunni að fara gegn ákvæðum stjórnsýslulaga. Í öðru lagi telur ríkisskattstjóri að hætta sé á að ákvæði frumvarpsins muni ekki taka til allra þeirra sem eru með lánsveð og þannig kunni jafnræði aðila að vera raskað. Í þriðja lagi sé um aukið flækjustig í skattframkvæmd að ræða. Í fjórða lagi að 500 millj. kr. hámark á lánsveðsbætur kunni að skapa veruleg vandræði í framkvæmd. Í fimmta lagi að texti ákvæðisins sé ekki nægilega skýr hvað varðar það hvort bæði lögaðilar og einstaklingar eigi rétt á vaxtabótum en nefndin telur þó ljóst að tilvísun til 68. gr. B tekjuskattslaga taki af allan vafa um að frumvarpinu er aðeins ætlað að ná til einstaklinga en ekki lögaðila en nefndin leggur þó til breytingu því til áréttingar. Í sjötta lagi telur ríkisskattstjóri að óljóst sé um málskotsleiðir samkvæmt frumvarpinu og í sjöunda lagi gerir ríkisskattstjóri athugasemdir við kostnaðaráætlun fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins en ríkisskattstjóri telur að af samþykkt frumvarpsins muni leiða töluverður aukakostnaður fyrir embættið.

Efnahags- og viðskiptanefnd telur athugasemdir ríkisskattstjóra þess efnis að nauðsynlegt sé að bregðast við flestum þeirra. Þannig leggur nefndin til að áréttað verði í 1. málslið 1. mgr. 1. gr. að ákvæðið taki til einstaklinga en ekki lögaðila. Við 2. málslið 1. mgr. er lögð til sú breyting að við skilyrði um að íbúðarhúsnæði hafi verið í eigu umsækjanda 31. desember 2010 bætist að á þeim degi hafi eftirstöðvar allra fasteignaveðlána vegna þess húsnæðis numið meira en 110% af fasteignamati og að fyrir gildistöku þessa frumvarps hafi umsækjandi ekki fengið höfuðstól lána lækkaðan niður fyrir 110% af fasteignamati við sölu húsnæðis eða á annan hátt. Þá er lagt til að frumvarpið miðist við fasteignaveðlán sem stofnað var til frá 1. janúar 2004 til og með 31. desember 2008. Þá er lagt til við 3. mgr. að reiknireglan miðist við fasteignamat íbúðarhúsnæðis 31. desember 2010 og það sama gildir um hjúskaparstöðu umsækjanda, samanber 4. mgr. Lagt er til að við 3. mgr. bætist ákvæði um að hafi húsnæði verið selt á árunum 2009 eða 2010 skuli reikna lánsveðsvaxtabætur hlutfallslega í samræmi við samanlagðan eignarhaldstíma á þeim árum og eftirstöðvum fasteignaveðlána og fasteignamati eins og það var við sölu, en ákvæðið ber að skýra á sama hátt og þegar um almennar vaxtabætur er að ræða, samanber 6. mgr. 68. gr. B laga nr. 90/2003, en miða við dagafjölda á tveggja ára tímabili. Lagt er til að 500 millj. kr. hámark á lánsveðsbætur falli brott og að ríkisskattstjóra verði heimilt að taka til greina umsóknir vegna lánsveðsbóta í allt að tvö ár frá því frestur til umsókna rennur út og að heimilt verði að kæra ákvörðun ríkisskattstjóra um ákvörðun bóta til yfirskattanefndar. Þá er lagt til, með hliðsjón af verkefnum embættisins, að ríkisskattstjóra verði veittur lengri tími til að ákvarða lánsveðsvaxtabætur og að það skuli gert fyrir 17. mars 2014.

Með þessum breytingum telur nefndin að brugðist hafi verið við öllum þeim athugasemdum ríkisskattstjóra sem ástæða er til að bregðast við með tilliti til skýrleika frumvarpsins og framkvæmanleika. Óhjákvæmilegt er þó þegar löggjafinn ákveður að koma til móts við ákveðinn hóp fólks sem borið hefur skarðan hlut frá borði síðustu árin að það auki lítillega á flækjustig skattkerfisins en nefndin telur það þess virði í þessu tilfelli. Að þessu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem getið er um í nefndaráliti á þskj. 1331 og eru raktar þar í stafliðum a til og með i. Ég tel ekki sérstaka ástæðu til að fara yfir allar þær breytingar. Ég hef gert grein fyrir þeim efnislega og þær er að finna á þessu nefndaráliti.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að því að þessar ráðstafanir eru mjög litlar miðað við vandann, 2%, og að greiðslurnar renna ekki til lækkunar á láninu sem hvílir á lánsveðinu og vandinn getur því verið áfram til staðar.

Lilja Mósesdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara þar sem hún telur úrræðið vera uppgjöf gagnvart gjaldþrota lífeyrissjóðakerfi og breyta litlu fyrir lánsveðshópinn.

Guðlaugur Þór Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Helgi Hjörvar formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Skúli Helgason, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Eygló Harðardóttir og Lilja Mósesdóttir, með fyrirvara.