141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[01:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi og frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi.

Atvinnuveganefnd hefur fjallað um málin og kallað til sín fjölmarga gesti til þess að fara yfir það.

Frumvörpin varða bæði uppbyggingu kísilvers í landi Bakka í Norðurþingi. Frumvarp í máli 632 felur í sér heimild til að gera fjárfestingarsamning um rekstur og byggingu kísilvers, lýsingu á verkefninu, heimildir til ívilnana á sviði skatta og gjalda auk heimilda fyrir ríkissjóð til að taka þátt í greiðslu kostnaðar vegna undirbúnings verkefnisins. Frumvarp í máli 633 felur í sér heimildir til að skuldbinda ríkissjóð til að koma fjárhagslega að vega- og hafnarframkvæmdum í tengslum við kísilversuppbygginguna.

Gestir og umsagnaraðilar voru flestir jákvæðir í garð frumvarpanna. Að þeirra mati gefa þær athuganir sem liggja frumvörpunum til grundvallar þá mynd að uppbygging kísilversins muni hafa jákvæð þjóðhagsleg áhrif og styrkja verulega byggðir á Norðausturlandi. Gert er ráð fyrir að kísilver á Bakka nýti orku frá jarðvarmavirkjununum á jarðhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum. Virkjunarkostir í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum eru í orkunýtingarflokki samkvæmt gildandi þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt upplýsingum meiri hlutans er undirbúningur framangreindra virkjunarkosta lengst kominn af þeim virkjunarkostum sem Landsvirkjun hefur til athugunar, útboðshönnun er í gangi og því hægt að bjóða viðkomandi virkjunarframkvæmdir út með stuttum fyrirvara.

Af gögnum málsins og umræðum á fundum nefndarinnar má sjá að undirbúningur verkefnisins er langt kominn. Þannig liggja drög helstu samninga fyrir og virðast allir sem að verkefninu koma, beint eða óbeint, tilbúnir að takast á við það. Helsti óvissuþátturinn virðist vera utanaðkomandi, þ.e. þróun í alþjóðlegu efnahagslífi, m.a. áhrif hennar á eftirspurn eftir framleiðsluvörum kísilversins og annars iðnaðar sem áætlað er að verði starfræktur á Bakka.

Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna framkvæmdanna mun verða um 3.415 millj. kr. á uppbyggingartímanum. Að mati meiri hlutans verður að telja verulegar líkur á því að sú upphæð skili sér til baka í ríkissjóð til lengri tíma litið og því muni afkomubati verkefnisins vega upp skammtímaáhrif sem af því hljótast.

Á fundi nefndarinnar komu ákveðnar áhyggjur fram varðandi heimild til undanþágu frá almennu tryggingagjaldi samkvæmt 4. tölulið 2. mgr. 3. gr. frumvarps í máli 632, um kísilver í landi Bakka. Þannig kom fram að undanþágan hefði mögulega í för með sér óvissu um réttarstöðu starfsmanna kísilversins. Skilningur meiri hlutans er að þær áhyggjur séu óþarfar enda muni réttindi starfsmannanna verða óskert þrátt fyrir undanþáguna.

Á fundum nefndarinnar kom fram að uppbygging innviða í Norðurþingi væri grunnforsenda frekari uppbyggingarverkefna á svæðinu. Í því sambandi var bent á að Thorsil ehf. hefur gert samkomulag við Landsvirkjun um skilmála vegna raforkukaupa fyrir kísilmálmverksmiðju sem það hyggst reisa og reka á Bakka. Að auki hefur franska fyrirtækið Saint-Gobain, eitt af 10 bestu nýsköpunarfyrirtækjum í Frakklandi og eitt af 100 stærstu fyrirtækjum í heimi, hafið umhverfismat, þ.e. frummat, vegna kísilkarbítverksmiðju á svæðinu. Í almennri umræðu hefur nokkuð verið komið inn á að hvaða leyti ákvæði frumvarpsins fela í sér fordæmisgefandi aðgerðir. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að uppbygging kísilvers er einstakt verkefni fyrir þær sakir að í því felst uppbygging á byggða- og samfélagslega köldu svæði þar sem samfélags- og atvinnuástand hefur veikst síðastliðin ár. Innviði samfélagsins þarf að byggja upp til að mögulegt sé að ráðast í uppbyggingu á Bakka. Þá kom það mat fram á fundi nefndarinnar að skref væru stigin í rétta átt með því að veita frumkvöðlum við uppbyggingu á köldum svæðum frekari ívilnanir en öðrum enda tækju þeir ríkari þátt en aðrir í aðlögun innviða og samfélags að nýjum atvinnu- og samfélagsháttum. Var framlag slíka frumkvöðla talið verulegt, tilvist þeirra kynni að skipta sköpum þegar kæmi að því að laða frekari uppbyggingu að viðkomandi svæðum.

Á fundum nefndarinnar kom einnig fram að áhrif verkefnisins verða mikil á norðausturhluta landsins. Í greinargerð þróunarsviðs Byggðastofnunar um svæðisbundin áhrif verkefnisins er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að ef ekki komi til nýrrar atvinnuuppbyggingar muni íbúum í Þingeyjarsýslum fækka um 330 manns næstu tíu ár og slík fækkun mundi veikja stoðir samfélagsins. Telur þróunarsviðið að uppbygging iðjuvers eða iðjuvera á svæðinu muni beint og óbeint verða til þess að íbúum fjölgi um 750–1.130 manns. Ljóst er því að sveitarstjórnir á norðausturhluta landsins þurfa að vera tilbúnar til að fást við þau verkefni sem íbúafjölgunin kallar á. Á sama tíma þurfa sveitarstjórnarmenn að gæta að sér þar sem áhrifin verða að hluta tímabundin.

Að lokum tekur meiri hlutinn fram að í umsögn Vegagerðarinnar um mál 633, um uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka, er tekið undir ábendingu sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar er spurt hvort ekki sé rétt að fjárveiting ríkissjóðs til vegaframkvæmda, sem heimild er veitt til í frumvarpinu, renni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem taki þar með ábyrgð á framkvæmdinni og skuldbindandi samningum en semji við Vegagerðina um stjórnun og umsjón með gerð mannvirkja. Að mati meiri hlutans er ábendingin þörf og eðlilegt að fjárveitingum og skuldbindingum verði hagað til samræmis við hana.

Í ljósi framangreinds leggur meiri hluti atvinnuveganefndar til að frumvörpin, þau tvö frumvörp sem um ræðir, verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Þór Saari var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þm. Kristján L. Möller, formaður og framsögumaður, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Björn Valur Gíslason, Magnús Orri Schram og Sigurður Ingi Jóhannsson, sem skrifar undir álitið með fyrirvara.

Með nefndarálitinu fylgja umsagnir fjárlaganefndar sem og umsögn frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem báðar leggjast með frumvörpunum, en í umsögn 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar segir, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur á það ríka áherslu að tryggt verði að framkvæmdirnar valdi ekki töfum á gildandi samgönguáætlun, enda fyrst og fremst um að ræða staðbundna styrkingu innviða vegna atvinnuátaks á svæðinu. Minni hlutinn leggur einnig ríka áherslu á að við framkvæmdirnar verði farið að lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og skipulagslögum, nr. 123/2010, í hvívetna.“

Fjárlaganefnd leggur í umsögn sinni áherslu á mikilvægi þess að áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum nái fram að ganga þrátt fyrir að frumvörpin feli í sér útgjöld og undirstrikar sömuleiðis mikilvægi framkvæmdanna á því svæði sem er verið að ráðast í, þ.e. á norðausturhorni landsins sem og fyrir landið allt.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir umsögn meiri hluta atvinnuveganefndar. Um málið náðist ágæt samstaða í nefndinni og að mínu mati þarf ekki að vísa því aftur til frekari umfjöllunar í nefndinni nema eftir því verði óskað sérstaklega. Það var farið ágætlega yfir málið og eins og ég sagði áðan náðist víðtæk sátt um það.