141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[01:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var athyglisvert ekki-svar hjá hv. þingmanni, það kom ekki fram í svari hans við andsvari mínu hvort Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans muni styðja frumvarpið. Það kemur sannarlega fram í nefndarálitinu að flokkurinn ætlar ekki að beita sér gegn því að það verði afgreitt. Ætla mætti af umsögninni að tilgangurinn með dagskrártillögunni um að knýja það fram fyrr á dagskránni hafi verið að setja fótinn fyrir það, þvælast fyrir því, tefja afgreiðslu málsins. Og það hafi meðal annars verið vegna þess sem hv. þingmaður treysti sér ekki til að svara áðan, hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu styðja þetta mál. Ég reikna með að það hafi verið rætt á þingflokksfundum og menn hafi gert upp hug sinn. Nefndarálitið bendir til þess að það sé blendinn hugur þingmanna Sjálfstæðisflokksins gagnvart málinu. Það kemur sömuleiðis fram í því að þessir tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd stóðu ekki að meirihlutaáliti sem styður við málið heldur kusu að kljúfa sig frá og flytja um þetta sérstakt nefndarálit sem er mjög athyglisvert að mörgu leyti, þ.e. verið er að sá efasemdarfræjum um réttmæti verkefnisins.

Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hv. þingmanns og þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins: Styður Sjálfstæðisflokkurinn þetta verkefni, að það fari af stað á því svæði sem hefur verið svelt atvinnulega séð um allt of langan tíma, og á það virkilega skilið af okkur hér á Alþingi að við styðjum við mál sem loksins eru þó komin upp á borðið og hægt er að knýja af stað? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)