141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[02:21]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er mikið að höggvið var á þann hnút sem ein af grunnforsendum fjárlaga hefur verið í síðastliðin þrjú til fjögur ár og lýtur að því að uppbygging í orkufrekum iðnaði mundi skapa ákveðinn vöxt og breikka skattstofna ríkissjóðs. Að því leytinu til fagna ég því frumkvæði sem hér er verið að sýna í þeim efnum og hæstv. atvinnuvegaráðherra ber að þakka fyrir það. Ég hefði gjarnan kosið að þetta hefði gerst til muna fyrr.

Það hefur borið nokkuð á hamingjuóskum hér til íbúa í Þingeyjarsýslum og annars staðar á Norðurlandi í máli ræðumanna. Ég vara við slíkum hamingjuóskum á þessu stigi máls, held að betra sé að bíða með hamingjuóskir þangað til uppbyggingin sjálf hefst. Þetta er einungis áfangi á þeirri leið. Það er töluverður spölur eftir uns séð verður fram á að uppbyggingin sjálf hefjist. Ég vara við því að fagna of mikið á þessu stigi máls þó að vissulega sé þetta áfangi sem ber að fagna í vinnslu þess að við færumst nær því lokamarki að þarna verði byggð upp sú starfsemi sem um ræðir.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna hér orðræðu í andsvörum milli hv. þm. Illuga Gunnarssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar, og hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, sem mælti fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, þar sem kom fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar að tillaga tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að setja þetta mál á dagskrá þingfundar hefði veri sett fram í þeim tilgangi að tefja fyrir afgreiðslu málsins. Þetta er alrangt. Sú tillaga sem sett var fram til breytingar á dagskrá var gerð með samþykki þingflokks Sjálfstæðisflokksins, svo að það sé sagt úr þessum ræðustóli. Orðræðan sem hér var á annan veg og gefið til kynna að þetta væri einhver tafaleikur er í rauninni í sama anda og hefur staðið í vegi fyrir því að það mál sem um ræðir, þetta þarfa mál, hafi fengið þann framgang sem þurfti. Ég hélt satt að segja að slík orðræða væri fulltæmd, að nóg væri komið af bölvuðu þrasi og bulli um þetta þarfamál. Við ættum ekki að detta ofan í þann fúla pytt á síðustu dögum þingsins að fara í slíkan meting, svo að ég taki ekki sterkar til orða.

Ég fagna þeim áfanga sem í málinu felst, vara við þeim húrrahrópum sem hér eru kveðin upp og gefa til kynna að við séum komin til enda. Það er töluverður spölur eftir og allnokkur tími. Töluvert mikil vinna er eftir við að fullnusta þetta mál. Við skulum vera á jörðinni með það, en ég fagna því að hér sé stigið ákveðið skref í þá átt að laga þann lagaramma sem um þessa starfsemi þarf að gilda.

Ég vek sérstaka athygli á því ákvæði sem er að finna í minnihlutaáliti atvinnuveganefndar frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í þeirri nefnd. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að mati minni hlutans kristallar sú staða sem endurspeglast í frumvörpunum að það er ekki vinnandi vegur að ætla sér að ná því markmiði að laða að fjárfestingu í íslenskum atvinnuvegum með almennum lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Sýnt er að slík almenn lög verða seint nægilega sveigjanleg til þess að þau hafi virkni.“

Þetta frumvarp eða þessi tvö frumvörp eru í rauninni besta staðfestingin á því að sú skattstefna sem hér hefur verið rekin af núverandi ríkisstjórn hefur gengið sér til húðar og viðurkenningin felst í þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir og ég fagna þeirri staðfestingu sem þau fela í sér.