141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[02:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp af tveimur ástæðum. Annars vegar vil ég, eins og ég gerði við framlagningu þessara frumvarpa, fagna því að þessum áfanga í málinu sé náð. Það er rétt að enn er langt til lands að atvinnuuppbygging hefjist og sá hagvöxtur sem við væntum af þessum framkvæmdum fari að skila sér í þjóðarbúið og þau nýju atvinnutækifæri sem við væntum að skapist á norðausturhorninu, Húsavík og nágrenni, skili sér til svæðisins. Þetta er nauðsynlegt skref. Við framsóknarmenn höfum beðið eftir þessu lengi við og fögnum því sérstaklega.

Hagvöxtur á Íslandi og fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki og hagvöxtur mun lægri en menn hafa vænst og spáð, m.a. vegna þess að þær forsendur sem legið hafa fyrir hagvaxtarspám undanfarin ár og allt þetta kjörtímabil hafa verið uppbygging orkufreks iðnaðar einhvers staðar á landinu. Lengi vel var það álver í Helguvík og síðan framkvæmdir við Bakka sem upphaflega var búist við að yrði álver, en endar nú í kísilveri sem er mun minni framkvæmd og stendur ekki undir þeirri innviðafjárfestingu sem stórt verkefni af stærðargráðu álvers hafa hingað til gert, hvort sem er á Grundartanga eða Reyðarfirði og eins og staðið hefur til í Helguvík. Þess vegna er ljóst að ríkisvaldið þarf að koma að þessari uppbyggingu. Eins og menn hafa til að mynda bent á með hugsanlega stóriðjuuppbyggingu í Þorlákshöfn þá verður ríkisvaldið að koma þar að til þess að gera samninga um stórskipahöfn og aðra innviði.

Fyrirvarinn sem ég er með á þessu máli helgast af því að ég tel að hér sé komið skýrt fordæmi. Ég sakna þess að samhliða þessu hafi ekki komið fram frumvörp er varða uppbyggingu í Helguvík, verkefni sem er sannarlega á döfinni, komið af stað og búið að eyða þar talsverðum fjármunum á liðnum árum, en ríkisvaldið hefur ásamt fleiri þáttum komið í veg fyrir þá uppbyggingu.

Ég verð að nota þetta tækifæri og lýsa yfir óánægju minni með þær yfirlýsingar sem hafa komið frá hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að þetta hafi ekki fordæmisgildi í Helguvík. Ég tel að slíkt sé augljóst. Ég tel jafnframt augljóst að sú stefna ríkisstjórnarinnar sem menn stærðu sig af þegar komin var rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga sem allt mundi rúmast innan sýni að við hvert verkefni þurfi að skoða mismunandi aðstæður og því virðist niðurstaða ríkisstjórnarinnar, alla vega í þessu máli, vera sú að sérstaka samninga þurfi við hverjar aðstæður.

Samkeppni á alheimsmarkaði um uppbyggingu í slíkum iðnaði hefur aukist stórkostlega á liðnum árum. Því má vænta fleiri samninga í framtíðinni sem þessi samningur verður fordæmi fyrir. Þeir munu væntanlega lúta sams konar lögmálum en hugsanlega vera sveigjanlegir eftir aðstæðum á hverjum stað. Ég vildi koma því á framfæri, herra forseti, að ég tel málið hafa augljóst fordæmisgildi.

Ég sakna þess að hér séu ekki komin fram frumvörp varðandi Helguvík, ekki veitir af að auka fjárfestinguna á Íslandi, ekki veitir af að byggja undir hagvöxt í landinu, en ég vil í lokaorðum mínum fagna því að þessum áfanga sé náð við Bakka við Húsavík og vona að þetta skref verði til þess að það verkefni komist á skrið, þau störf skapist sem við væntum og sá hagvöxtur, bæði fyrir svæðið þar og þjóðina alla, skili sér fljótt og vel.