141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[02:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti ásamt breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut, fyrir hönd fjárlaganefndar.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum sem tóku gildi í júnímánuði 2010 þar sem veitt er heimild til að stofna opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að standa að nauðsynlegum undirbúningi og láta bjóða út byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut í Reykjavík. Upphaflegur tilgangur félagsins var að standa að undirbúningi og útboði á byggingu nýs Landspítala með það að markmiði að ríkið tæki bygginguna á langtímaleigu þegar byggingarverktaki hefði lokið umsömdu verki.

Frumvarpið felur í sér töluverðar breytingar á lögunum þar sem hlutverk félagsins verður mun þrengra en í núgildandi lögum. Einnig er lagt til að ekki verði lengur til staðar heimild til að semja um að ríkið taki byggingarnar á leigu að loknu útboði. Jafnframt hefur breytingin í för með sér að lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, gilda um hönnun, byggingu og útboð hins nýja spítala. Fellt er niður skilyrði um að leita þurfi samþykkis Alþingis fyrir undirritun samninga að loknu útboði þar sem Alþingi mun koma að verkefninu með sama hætti og á við um aðrar opinberar framkvæmdir, þ.e. með ákvörðunum um fjárveitingar í fjárlögum hverju sinni.

Að lokinni yfirferð nefndarinnar er ljóst að almennt eru breytingarnar sem boðaðar eru í frumvarpinu til bóta. Það var til dæmis nær einróma álit gesta nefndarinnar að hagstæðara væri að um opinbera framkvæmd væri að ræða frekar en að ríkið færi svokallaða leiguleið, þ.e. að semja um langtímaleigu að loknu útboði. Rökin fyrir breytingunum eru af ýmsum toga. Fram hefur komið að íslenskir verktakar hafa tæplega fjárhagslega burði til að standa undir áhættunni sem fylgir því að bjóða í verkefni af þessari stærðargráðu. Gjaldeyrishöftin gera það síðan að verkum að alls óvíst er með áhuga og þátttöku erlendra verktaka. Yfirstjórn spítalans telur hagkvæmast og best að sem mest af verkefnum tengdum viðhaldi og rekstri fasteigna sé sinnt af spítalanum sjálfum en ekki utanaðkomandi aðilum.

Þessi rök koma einnig fram í almennum athugasemdum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fylgja frumvarpinu. Að auki kemur þar fram að væntanlega þarf ríkið að færa heildarskuldbindinguna til gjalda í reikningum ríkisins á framkvæmdatíma verksins en ekki einungis leigugreiðslur eftir því sem þær greiðast. Það breytir því engu um afkomu ríkissjóðs hvort um opinbera framkvæmd eða leiguframkvæmd er að ræða.

Nefndin ræddi einnig hagkvæmni og fjármögnun framkvæmdarinnar en ef af verður er hér um að ræða eina stærstu ríkisframkvæmd sögunnar. Byggingarkostnaður er áætlaður um 44,3 milljarðar kr., áætlaður kostnaður við hönnun, eftirlit og undirbúning er 4,3 milljarðar kr. og áætlað er að kaup nýrra tækja og búnaðar ásamt endurbyggingu eldra húsnæðis kosti 24,9 milljarða kr. Á móti vegur 8,5 milljarða kr. áætluð eignasala. Samtals gerir þetta 65 milljarða kr. en að auki bendir fjármála- og efnahagsráðuneytið á að þar sem ríkissjóður hafi ekki svigrúm til að fjármagna uppbygginguna nema með lántöku, megi gera ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs aukist um nálægt 20 milljarða kr. ef af framkvæmdinni verður. Þá er ekki meðtalin 6 milljarða kr. kostnaðaráætlun Háskóla Íslands vegna nýbyggingar og endurbóta á Læknagarði, sem fjármagnaðar verða með framlögum frá Happdrætti Háskóla Íslands.

Næstu skref felast í því að afla fjárheimilda í fjárlögum til að bjóða út fullnaðarhönnun. Framkvæmdasýsla ríkisins og Ríkiskaup munu gegna stóru hlutverki við útboð verksins í samræmi við lög nr. 84/2007, um opinber innkaup. Meiri hlutinn tekur ekki að sinni afstöðu til framkvæmdarinnar sjálfrar enda fjallar frumvarpið ekki um hana með beinum hætti, heldur eingöngu breytingu að því leyti að nær alfarið er fallið frá hugmyndum um að bjóða verkið út í formi langtímaleigu, eins og áður er rakið.

Nefndin hefur á undanförnum missirum lagt áherslu á að kaup, sala og bygging meiri háttar eigna sem og ákvarðanir um skuldbindingar til margra ára komi til umfjöllunar hjá nefndinni. Í samræmi við þessa stefnu leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu þannig að setningin: „Fyrir undirritun samninga að loknu útboði skal leita samþykkis Alþingis með almennum lögum“ falli ekki brott eins og þó er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Einnig telur meiri hlutinn að niðurlag nýrrar málsgreinar í 2. gr. um heimild ráðherra til að bjóða út í langtímaleigu skýrt afmarkaða minni byggingarhluta sé óþarft.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Björn Valur Gíslason, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lúðvík Geirsson, Valgerður Bjarnadóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, og þau þrjú hin síðastnefndu með fyrirvara.

Fjárlaganefnd er því nánast einhuga um þetta mál, átta af níu nefndarmönnum leggja til að málið verði samþykkt eins og það hefur verið kynnt hér, en einn nefndarmaður hefur lagst gegn því.