141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[03:08]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki svara fyrir hönd annarra þingmanna í þingflokki Framsóknarflokksins. Ég vitna bara í þá stefnu sem Framsóknarflokkurinn ákvað á síðasta flokksþingi þar sem hann leggst gegn því að byggingin verði að veruleika. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir þeim vanda sem Landspítalinn stendur frammi fyrir.

Mig langar til að leiðrétta hv. þingmann vegna þess að hann lét að því liggja að í frumvarpinu væri verið að endurbæta þann búnað sem þarf að vera á Landspítalanum. Það stendur ekki til. Það er einfaldlega verið að standa að nauðsynlegum undirbúningi útboðs byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Ég vil taka fram vegna þess að það hefur verið látið að því liggja í umræðunni að þetta sé nú svona lítilfjörlegt, að til stendur að heiti laganna verði: Lög um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

Ég tel að við þurfum að sjálfsögðu að tryggja öryggi sjúklinga Landspítalans miðað við ástand hans eins og það er í dag. Ég get ekki séð að ríkisstjórnin hafi gert það á þessu kjörtímabili. Ég get ekki heldur séð að þó að þetta hið svokallaða ohf. fái að starfa áfram eða þetta verði opinber framkvæmd, að það sé eitthvað í þessum lögum sem bæti þá aðstöðu sem nú er fyrir hendi.

Við höfum hins vegar sagt að við viljum forgangsraða öðruvísi. Við viljum taka umræðuna um hvernig heilbrigðisþjónusta landsmanna eigi að vera á landsvísu. Og síðan skulum við ákveða og taka ákvörðun um hvernig Landspítala við viljum hafa sem þjónar öllu landinu. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Ég vek athygli á því, ég hef kannski ekki alveg náð að komast inn á það á þessum stutta ræðutíma, að áhrifin á rekstur ríkissjóðs verða gríðarleg og öll markmið sem hv. þingmaður veit að ríkisstjórnin hefur sett sér fjúka út í veður og vind.