141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[03:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Málið sem hér er rætt er í raun breyting á gildandi lögum um málefni Landspítalans, um byggingaráform eða úrbætur í húsnæðismálum spítalans. Ég held að það sé nauðsynlegt í samhengi við þá umræðu sem hér hefur verið, ekki síst vegna þeirra orða sem hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson viðhafði í tengslum við það nefndarálit sem hann stendur fyrir sem minni hluti fjárlaganefndar, að ræða heildarsamhengi hlutanna. Það er alveg ljóst að mestu verðmætin sem Íslendingar eiga í heilbrigðiskerfinu eru það starfsfólk sem helgað hefur líf sitt og starf og krafta því verki að starfa innan heilbrigðisþjónustunnar, hvort heldur er í einkapraxís eða í opinberum heilbrigðisstofnunum. Það má öllum ljóst vera að mjög hefur sorfið að grunnstoðum heilbrigðiskerfisins sem byggt hefur verið upp á undanförnum áratugum.

Það er raunar mjög merkilegt að lesa í svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson óskaði eftir yfirliti um þróun ríkisútgjalda á árunum 1991–2011. Þar má sjá skiptingu ríkisútgjalda í svokölluðum A-hluta ríkissjóðs eftir málaflokkum allt frá 1998–2011 á verðlagi ársins í ár, 2013. Útgjöld til heilbrigðismála hafa farið úr því að vera 102 milljarðar kr. árið 1998 í hæst 146,4 milljarða kr. á árinu 2008, en þau eru komin niður í 128 milljarða kr. á árinu 2011. Samdrátturinn er verulegur frá því að útgjöldin voru hvað hæst að krónutölu á verðlagi ársins 2013, voru hæst á árinu 2008 eða rúmlega 146 milljarðar kr.

Þessi þróun er líka staðfest þegar skoðuð er tafla nr. 6 í þessu svari, sem er nýlega komið fram, þar sem má sjá hlutfallslega skiptingu ríkisútgjalda eftir málaflokkum. Hlutfall heilbrigðismála í ríkisútgjöldum í A-hluta ríkissjóðs hefur allt þetta árabil, 1998–2010, verið á bilinu 28–30%, rétt rúm, þar til á árinu 2011 þegar hlutfallið er komið undir 28%. Það staðfestir í raun að dregið hefur úr vægi þessa mikilvæga málaflokks í heildarútgjöldum og ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði.

Umræða undanfarinna missira hefur staðfest að sá samdráttur sem hefur verið í heilbrigðisútgjöldum á fjárlögum hvers árs er farinn að vega verulega að rótum þess kerfis sem byggt hefur verið upp. Við umræðu um þá stöðu er óhjákvæmilegt að horfa til þess hvernig búið er að þeirri grunnstofnun í íslensku heilbrigðiskerfi á sviði sjúkrahúsþjónustu sem Landspítali – háskólasjúkrahús er. Ég vil undirstrika að mitt viðhorf er að heilsugæslan eigi að sjálfsögðu að vera fyrsti viðkomustaður allra þegar þeir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og við þurfum að byggja betur undir heilbrigðisþjónustuna, sjúkrahúsúrræðin eiga að vera endastöð.

Í mínum huga er það frumvarp sem hér liggur fyrir staðfesting á því að grípa þarf til einhverra aðgerða á sviði heilbrigðismála á Íslandi og ekki síst að taka þarf ákvarðanir um það hvernig við viljum byggja upp Landspítala – háskólasjúkrahús. Með þeirri afstöðu minni er ég ekki að segja að við eigum ekki að huga að öðrum þáttum heilbrigðisþjónustunnar, ég er heldur ekki að segja að við eigum ekki að horfa til uppbyggingar heilbrigðisþjónustu annars staðar á landinu. Það er langur vegur frá. Þetta þarf að skoðast sem ein heild, en ég tel ábyrgðarlaust að taka þá afstöðu varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir um breytingu á gildandi lögum að hafna því. Við vitum öll sem unnið höfum sérstaklega við fjárlagagerð að sú stofnun sem hér um ræðir hefur veikst ár frá ári í ljósi verkefnanna sem henni er ætlað að sinna en ekki síður í ljósi þeirra fjárveitinga sem til hennar hafa verið skammtaðar sem og til annarra heilbrigðisstofnana í landinu.

Allt að einu tel ég mjög brýnt að haldið verði áfram við þá vinnu sem unnin hefur verið í þessu stóra máli. Á komandi árum þurfum við að gera upp við okkur hvaða leiðir á að fara og hvernig á að forgangsraða við þetta verkefni. Það er óhjákvæmilegt í mínum huga að ráðist verði í úrbætur í málefnum Landspítala – háskólasjúkrahúss en það er langur vegur frá að við séum komin á þann stað í dag að geta sagt fyrir um það á hvaða ári þetta muni hefjast, hversu mikið magn framkvæmda við ætlum að setja í gang og svo framvegis. Til þess eru þeir fyrirvarar sem gerðir eru við málið af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins allt of viðamiklir. Til þess liggja líka ástæður sem ég get rakið til umræðna í fjárlaganefnd í tengslum við fjárlagagerð.

Að minni hyggju eigum við eftir töluvert langan veg áður en við getum sagt fyrir um það nákvæmlega hvenær þetta verk verði hafið. Við þurfum einfaldlega að vera í miklu betri færum fjárhagslega til að geta gefið óyggjandi svör og sem mark er á takandi í þeim efnum.

Ég vil undirstrika undir lok þessarar stuttu ræðu minnar, forseti, að ég tel það frumvarp sem hér er til umræðu um breytingu á gildandi lögum fyrst og fremst staðfestingu á vilja Alþingis til að standa vörð um þennan lykilpunkt í heilbrigðisþjónustu Íslendinga og sérhæfðustu þjónustuna sem við veitum og að við ætlum okkur að sækja fram á því sviði og tryggja að við Íslendingar allir höfum aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Í þeim anda tel ég þetta frumvarp vera. Ég hvet til þess að um það verði allrík samstaða þó svo að við eigum eftir langan veg að fara áður en við getum tekið fullnaðarákvarðanir í þessum efnum.