141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem við hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson fluttum fyrir nokkrum vikum. Í því frumvarpi fólst ný tillaga að ákvæði til breytingar við stjórnarskrá sem ætlað var að vera tímabundið breytingarákvæði og skapa svigrúm til að ljúka ferli þeirra stjórnarskipunarumbóta sem hafist var handa um á þessu kjörtímabili en útséð var um að næðist að ljúka í heild þegar við lögðum tillöguna fram.

Í upphaflegri tillögu var gert ráð fyrir að 3/5 hlutar þingheims þyrftu að samþykkja frumvarp til stjórnarskipunarlaga og að 3/5 hlutar þjóðarinnar þyrftu síðan að staðfesta þá breytingu í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu. Við meðferð málsins í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var farið yfir þessa þætti og fengið álit sérfræðinga. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar varð sú að ekki væri heppilegt að hafa þá háttu á sem lagt var til í upphaflegri tillögu okkar formannanna. Við gerðum þá tillögu sem var að finna sem breytingarákvæði í frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um heildarendurskoðun stjórnarskrár, en það varð sem sagt niðurstaða nefndarinnar við frekari athugun og frekari umræðu að betra væri að fara aðrar leiðir. Sérstaklega var það álit sérfræðinga sem fyrir nefndina komu að ekki væri heppilegt að mæla fyrir um 60%, þ.e. 3/5 hluta, þingmanna sem samþykkisþröskuld með almennum hætti í ákvæðinu.

Því varð það niðurstaða meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að gera þá breytingartillögu á tillögu okkar formannanna að ákvæðið yrði með áþekkum hætti og kveðið var á um í frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins við lok þings 2009, í frumvarpi sem þar var lagt fram, með hv. þáverandi þingmann Björn Bjarnason sem 1. flutningsmann. Í því frumvarpi var gengið út frá því að til að stjórnarskrárbreytingar gætu átt sér stað án undangenginna alþingiskosninga þyrfti samþykki 2/3 hluta þings og síðan einfaldan meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó á þann veg að fjórðungur þjóðarinnar mundi gjalda jáyrði við breytingunni. Það varð sem sagt niðurstaða meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að gera þessa háttu að tillögu nefndarinnar við meðferð á hinni upphaflegu tillögu okkar formannanna.

Síðan hefur staðið í nokkru samningastappi á vettvangi þingsins um endanlega úrlausn mála. Við höfum rætt frágang þeirra við stjórnarandstöðu og það hefur ekki verið almennur vilji til þess að leyfa málinu að ganga fram til atkvæða og fá efnisúrlausn í málið. Til þess að fá efnislega niðurstöðu í málið og mæta þeim sjónarmiðum sem sett voru fram af hálfu stjórnarandstöðunnar gerum við það því að tillögu okkar að málið verði sett fram sem breytingartillaga á þann veg að þessi efnisbreyting meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem gerð var í meðförum nefndarinnar verði áfram ráðandi um efnið, þ.e. að 2/3 hlutar þings þurfi að samþykkja. Síðan líði 6–9 mánuðir frá samþykkt þings fram til þess að komi að samþykki þjóðarinnar og þá dugi einfaldur meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þó þannig að hækkaður verði samþykkisþröskuldurinn úr fjórðungi kosningarbærra manna í 40% kosningarbærra manna.

Þessi aðferð er sem fyrr segir einkum hugsuð til þess að greiða fyrir áframhaldandi vinnu við þá heildarendurskoðun á stjórnarskrá sem hófst á þessu kjörtímabili. Ef ekki verður samþykkt nein heimild af þessum toga blasir við að stjórnarskrárbreytingar verða ekki gerðar á næsta kjörtímabili fyrr en undir lok þess með hefðbundnum hætti. (Gripið fram í.) Hér leggjum við til að þessi leið verði möguleg á næsta kjörtímabili en jafnframt verði áfram hægt að breyta stjórnarskránni með fyrra horfi þannig að á næsta kjörtímabili verði heimilt að nýta þessa tilteknu nýju heimild en gamla heimildin um breytingar á stjórnarskrá haldi gildi sínu og verði áfram hin almenna regla við stjórnarskipunarbreytingar, a.m.k. þangað til stjórnarskrárgjafinn gerir aðra varanlega breytingu þar á.

Við teljum enn sem fyrr mikilvægt að hægt verði að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili. Við flutningsmenn þessarar tillögu veltum fyrir okkur hvort of langt væri gengið með þeirri hækkun samþykkisþröskuldar sem kveðið er á um í tillögunni eins og hún stendur nú. Það er vissulega hækkað samþykkishlutfallið frá fyrri tillögum en sem fyrr segir var það nauðsynlegt til að mæta þeim athugasemdum sem settar voru fram af hálfu stjórnarandstöðunnar og eru forsenda þess að málið fái að ganga til atkvæða án þess að það verði hefðbundnu málþófi að bráð.

Við teljum að þessi breyting sé ásættanleg. Áfram verður hægt að breyta stjórnarskrá án vandkvæða ef góð samstaða verður um breytingarnar og jafnvel þótt skoðanir verði skiptar um stjórnarskrárbreytingar er hægt að tryggja framgang þeirra með góðri kosningaþátttöku. Það er til dæmis hægt að greiða fyrir því með því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða almennum kosningum. Við búum við þá gæfu í þessu landi að þátttaka í almennum kosningum er gjarnan 70–80% og þá eru jafnvel líkur á að stjórnarskrárbreytingar sem umtalsverður ágreiningur væri um gætu samt sem áður verið samþykktar, svo fremi að atkvæðagreiðslan færi fram samhliða almennum kosningum.

Það er hins vegar mikilvægt að það sé sagt mjög skýrt að í þessari tillögu felst ekki óskastaða okkar flutningsmanna þessa frumvarps um hvernig haga skuli þjóðaratkvæðagreiðslum almennt. Ég mundi ekki treysta mér til að mæla fyrir þessu sem almennri reglu við breytingar á stjórnarskránni. Ég tel að þetta sé of naumt skammtað sem almenn regla um breytingar á stjórnarskrá. Til að skapa þann glugga sem við teljum óhjákvæmilegt að verði opnaður fyrir stjórnarskrárbreytingar á næsta kjörtímabili teljum við þetta ásættanlega niðurstöðu, sérstaklega þegar haft er í huga að eftir stendur að meginreglan er áfram hin gamla aðferð og hún heldur gildi sínu. Þetta ákvæði er tímabundið fram til vors 2017.

Ég ítreka að í þessari tillögu felst ekki sú afstaða okkar að skynsamlegt sé almennt að beita samþykkisþröskuldum af þessum toga. Það kom sérstaklega fram í umræðum í nefndinni að það væri tvíbent að beita samþykkisþröskuldum yfir fjórðung kjósenda og það orkaði tvímælis sem almenn regla í almennum þjóðaratkvæðagreiðslum. Svo má auðvitað færa rök fyrir því að við samþykki á stjórnarskrá séu efnisrök til þess að gera ríkari kröfur en í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu um önnur mál og þannig mætti svo sem rökstyðja þessa niðurstöðu. Ég bendi líka á að fyrir þinginu liggur frumvarp hv. þm. Péturs H. Blöndals og margra annarra þingmanna þar sem er að finna ákvæði um áskilnað um helmingssamþykkisþröskuld. Það tel ég allt of hátt og hefði ekki staðið að. Þessi leið sem við leggjum hér til er hógværari en sú lausn, betri og skapar meiri möguleika fyrir stjórnarskrárbreytingar. Við náum þeim árangri að þetta frumvarp getur þá hlotið afgreiðslu á þessu þingi og vonandi staðfestingu á nýju þingi að afloknum kosningum.