141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er rétt að það er skylda þingmanna að mæta við atkvæðagreiðslu og væntanlega þá skylda að boða til þeirra með réttum hætti þannig að þeir geti mætt. Kannski eru þessar áhyggjur mínar óþarfar, 2/3 eru meira en 40 þingmenn.

Nú er það þannig að hv. þingmenn Hreyfingarinnar voru allir þrír með á þessu frumvarpi mínu og það er stigsmunur á þessari hugmynd hv. formannanna, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, en ekki eðlismunur fyrir utan það að þetta er til bráðabirgða. Var leitað til Hreyfingarinnar um að vera með á þessu frumvarpi? Ég spyr í ljósi þess að þeir voru með á mínu frumvarpi sem er mjög svipað nema þröskuldurinn er 50% í staðinn fyrir 40% sem er meira, eins og ég segi, stigsmunur fremur en eðlismunur.

Aðrar spurningar eru: Var leitað til fulltrúa annarra flokka um að vera með á þessari breytingartillögu? Þótti þeim þröskuldurinn of lágur eða hvað stóð í veginum?

Ég er sem sagt á margan hátt mjög sáttur við þessa tillögu, við ræðum hana núna og förum í gegnum hana og sjáum til hvort nægur stuðningur fæst við hana.