141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Ég get staðfest við hv. þingmann að þegar við lögðum fram frumvarp okkar í upphafi og þingsályktunartillöguna líka sem við lögðum fram, sem við höfum vel að merkja ekki náð samkomulagi við forustu stjórnarandstöðunnar um að komi hér til atkvæða, leituðum við eftir samstöðu við alla flokka og buðum fulltrúum allra að vera með á málinu, þar með talið fulltrúum Hreyfingarinnar. Þeir kusu að gera það ekki. Ég veit ekki hvort þeim finnst betri sá hái þröskuldur sem þeir hafa sjálfir lagt til sem meðflutningsmenn á tillögu hv. þingmanns sjálfs, því verða þeir að svara sjálfir, en hitt get ég sagt að ég tel að hér sé opnaður gluggi sem skiptir máli að sé opinn. Það skiptir máli að við höfum allnokkra kosti til þess að ljúka meðferð stjórnarskrármála á næsta kjörtímabili. Við fjölgum þeim möguleikum með þessu, við aukum þrýstinginn á að unnið verði áfram í málinu í upphafi næsta þings í staðinn fyrir að stjórnarskrármálið fái hin hefðbundnu örlög að vera geymt þar til líður á þing og menn fara að sjá glitta í síðasta árið þegar menn eiga samkvæmt stjórnarskránni eina kostinn til að breyta henni.

Það hjálpar til við að halda dampi í nauðsynlegri vinnu við stjórnarskrárumbætur að hafa þennan glugga opinn. Svo verður það val þingsins á hverjum tíma á næsta kjörtímabili, ef frumvarpið verður staðfest af nýju þingi, hvort það nýtir þennan glugga eða hvort það kýs að vinna eftir hinni leiðinni og leggja frumvarpið á endanum fyrir eftir gömlu leiðinni.