141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að þessi umræða sé hér um stuðning Hreyfingarinnar við tillögu hv. þm. Péturs Blöndals. Ég var spurð nákvæmlega um stuðning minn við þessa tillögu fyrir um það bil tveimur mánuðum á opinberum vettvangi þar sem ég dró til baka stuðning minn við hana, einmitt út af þessum háa þröskuldi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef tillagan hefði verið lögð hér fram hefði ég látið prenta hana upp þannig að nafn mitt væri ekki á henni. Það eru til vitni að þessum umræðum, út af því að ég var spurð sérstaklega út í þetta, bara þannig að því sé haldið til haga. Ég vil líka varpa ljósi á að það var að kröfu Sjálfstæðisflokksins, ekki hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem farið var út í að hafa þessa háu þröskulda. Hv. þingmaður staðfesti við mig að þetta væri ekki að kröfu Framsóknarflokksins, bara þannig að því sé haldið til haga. Það er þá verið að bregðast við kröfu Sjálfstæðisflokksins sem vildi fara í þennan 50% þröskuld.

Mig langaði að spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason hvort hann hefði velt fyrir sér tölfræðinni sem liggur að baki þessu. Þetta þýðir í raun að 40% á kjörskrá þurfi að segja já. Hversu hátt var hlutfallið samkvæmt þessum útreikningum, í samhengi við síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu, sem greiddi atkvæði með því að ákvæði um þjóðkirkju stæði óbreytt í stjórnarskránni?