141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Þannig að tölfræðinni sé haldið til haga hefði til dæmis þessi 25% þröskuldur, sem var í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir fundi með Bruno Kaufmann, verið of hár til að fá þjóðkirkjuákvæðið í gegn þannig að þegar við erum komin upp í 40% er mjög erfitt miðað við almennt séð þátttöku í einhverju öðru en sveitarstjórnarkosningum og kosningum til þings að fá svona marga til að mæta á kjörstað.

Er þá einhver trygging fyrir því að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verði samhliða sveitarstjórnarkosningum eða forsetakosningum í þessu samkomulagi flokkanna?

Formaður Framsóknarflokksins sagði að þetta hefði ekki verið krafa hjá Framsóknarflokknum, var það þá einhver önnur krafa eða er hann að segja ósatt um að það hafi ekki verið krafa hjá þeim um þennan 40% þröskuld heldur hafi hann verið tilbúinn að hafa þetta eins og var í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar?