141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:50]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Hvað varðar auðlindaákvæðið lít ég svo á að ef næsta þingi tækist að fara þá leið sem ég hef kallað tárvotu sáttaleiðina, um að gera þessar breytingar og samþykkja svo nýja stjórnarskrá á Þingvöllum á næsta ári, á 70 ára afmæli lýðveldisins, lít ég svo á að allt plaggið í heild yrði borið undir þjóðina, þar með talið auðlindaákvæðið. Það eru að sjálfsögðu margar greinar í stjórnarskránni, ég veit að þingmaðurinn þekkir það vel, sem við erum ekki að breyta, sem ekki hafðar verið lagðar til breytingar á frá núgildandi stjórnarskrá. Númeraröðin breytist og annað slíkt og þá yrði það eins með auðlindaákvæðið sem við mundum setja inn núna, það mundi að sjálfsögðu færast til og hugsanlega fara í annað samhengi. Ég lít svo á að það mundi að sjálfsögðu fara með í heildarpakkanum en það væri ekki einhver eyða í heildarskjali fyrir eitthvert ákvæði sem hefði verið sett inn í þinginu nokkrum mánuðum fyrr.

Hins vegar hef ég enga trú á að við munum ná þessu með þessari leið.

Umdeild mál. Hér erum við komin að gríðarlega mikilvægu máli. Hvað eru umdeild mál? Mín skoðun er sú að það sem er umdeilt hér inni er ekki endilega umdeilt hjá þjóðinni. Þegar við erum komin með sátt hér inni erum við oft í mikilli ósátt við þjóðina og sjáum það kannski mest og best þegar kemur að auðlindaákvæðinu sjálfu sem var hæsta samþykkið í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hér hafa menn allt á hornum sér.