141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að halda því til haga að einungis 51% þeirra sem greiddu atkvæði í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu vildi halda þjóðkirkjunni áfram sem þjóðkirkju.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um mannréttindakaflann. Ég hef heyrt hv. þingmann segja að hann telji ekki tilefni til þess að endurskrifa hann, að hann sé tiltölulega nýtilkominn. Hefur hann kynnt sér af hverju þriðju kynslóðar mannréttindi eru mikilvæg og af hverju það er mikilvægt að hafa þau sem hluta af mannréttindakaflanum? Hvað finnst honum um til dæmis þriðju kynslóðar upplýsingalöggjöf og að Ísland yrði fyrsta land í heiminum sem mundi viðurkenna réttindi fólks til að hafa aðgengi að netinu í stjórnarskrá sinni o.s.frv.?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafni því þá, bara til að fá það alveg á hreint, að stjórnarskráin verði tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum til að spara pening sem yrði hægt að nota í Landspítalann eða eitthvað svona? Mig langar líka að spyrja hvort það hafi verið rætt á samningafundunum að reyna að binda einhvern sérstakan tíma til að tryggja að það sem þjóðin samþykkti og vildi í þjóðaratkvæðagreiðslu verði alveg örugglega að veruleika.